Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Sviðslistafrumvarp lagt fram á Alþingi

Sviðslistafrumvarp lagt fram á Alþingi - myndÍD/Jónatan Grétarsson
Með nýju sviðslistafrumvarpi er leitast við að samræma löggjöf á sviði sviðlista við heildarlöggjöf á sviði bókmennta, myndlistar og tónlistar. Veigamiklar breytingar hafa orðið á sviðlistaumhverfi og löggjöf sem að því snýr frá setningu leiklistarlaga nr. 138/1998 sem nýju frumvarpi er ætlað að bregðast við. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra mælti nýverið fyrir frumvarpinu á Alþingi.

„Íslenskt menningarlíf er í miklum blóma og við getum verið stolt af þeim glæsilega árangri sem listafólkið okkar hefur náð á hinum ýmsu sviðum. Þetta frumvarp mun skapa betri umgjörð í kringum sviðslistir í landinu en umtalsvert samráð fór fram við gerð þess,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Meðal helstu nýmæla í frumvarpinu er að ríkari kröfur eru gerðar um menntun þjóðleikhússtjóra og skýrara kveðið á um skipunartíma hans og mögulega endurskipun. Ákvæði um þjóðleikhúsráð er breytt á þann veg að fagfélög sviðslistafólks tilnefni framvegis þrjá fulltrúa í þjóðleikhúsráð en tveir fulltrúar verði skipaðir án tilnefningar.

Kveðið er á um hlutverk Íslenska dansflokksins í nýju frumvarpi og fær starfsemi hans í fyrsta sinn stoð í lögum.

Bráðabirgðaákvæði er í frumvarpinu þar sem kveðið er á um að ráðherra skipi nefnd sem falið verður að skila tillögum að mögulegri stofnun íslenskrar þjóðaróperu.

Fjallað er um sviðlistaráð og sviðlistasjóð í nýju frumvarpi en hlutverk ráðsins er að úthluta styrkjum úr sviðslistasjóði til sjálfstæðrar sviðlistastarfsemi, til atvinnuhópa annars vegar og áhugahópa í sviðlistum hinsvegar. Ráðherra er jafnframt veitt heimild til þess að fela þriðja aðila að annast kynningarmál íslenskra sviðlista og efla alþjóðlegt samstarf íslenskra sviðlistamanna og stofnana.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira