Hoppa yfir valmynd
19. september 2019

Löglærður fulltrúi

Löglærður fulltrúi

Við embætti ríkislögreglustjóra er laus til umsóknar staða löglærðs fulltrúa í greiningardeild ríkislögreglustjóra. Auk lögfræðistarfs, sem heyrir undir deildarstjóra greiningardeildar, er á ábyrgð viðkomandi að veita forstöðu gerð áhættumats ríkislögreglustjóra um greiningu og mat á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og leiðir til að draga úr greindri áhættu samkvæmt 4. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018. 

Ríkislögreglustjóri starf¬rækir lögreglurannsóknardeild og greiningardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggur mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Heiti deildarinnar er greiningardeild ríkislögreglustjóra. Greiningardeild starfar á grundvelli lögreglulaga nr. 90/1996 og reglugerðar um greiningardeild ríkislögreglustjóra nr. 404/2007.

Hlutverk og verkefni greiningardeildar eru m.a.:  
- Safna upplýsingum, úrvinnsla, greining og skipti á upplýsingum í því skyni að koma í veg fyrir eða draga úr líkum á afbrotum.
- Meta hættu og áhættu vegna skipulagðrar glæpastarfsemi, hryðjuverka og eftir atvikum annarra brota er falla undir X. og XI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
- Gefa reglulega út ógnarmat vegna skipulagðrar glæpastarfsemi og hryðjuverka.
- Annast áhættugreiningu vegna einstaklinga og afla upplýsinga vegna verndar og öryggisgæslu fyrir æðstu stjórn ríkisins.
- Veita ráðgjöf um viðbúnað sem hefur þýðingu fyrir hagsmuni ríkisins og þjóðhagslega mikilvæga starfsemi.
- Taka þátt í undirbúningi aðgerða til stuðnings lögreglunni í landinu og afla upplýsinga í málum er tengjast öryggi ríkisins.
- Veita lögregluliðum aðstoð vegna landamæravörslu.
- Annast öryggisúttekt á einstaklingum og útgáfu vottorða um öryggisgráður vegna starfsemi lögreglu og vegna þátttöku í alþjóðlegu samstarfi af hálfu stjórnvalda.
- Hafa eftirlit með því að reglum sé fylgt um meðhöndlun gagna sem eru öryggisgráðuð.
- Taka þátt í neyðaráætlanagerð almannavarna.
- Taka þátt í aðgerðarstjórn ríkislögreglustjóra vegna sérstakra verkefna.
- Ríkislögreglustjóri mælir fyrir um almennt vástig og sérstakt vástig vegna flugverndar og siglingaverndar í samræmi við alþjóðasáttmála sem Ísland er aðili að.

Starfsstöð er að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Ríkislögreglustjóri ræður í stöðuna frá og með 1. nóvember 2019. 

Helstu verkefni og ábyrgð: 
- Umsjón með gerð áhættumats fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og önnur tilfallandi verkefni á grundvelli laga nr. 140/2018. 
- Rannsóknir og stjórnun rannsókna mála er kunna að varða við X. og XI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 
- Aðgerðir til að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverka og annarra skyldrar háttsemi.  
- Önnur tilfallandi verkefni greiningardeildar. 

Hæfnikröfur og frekari upplýsingar um starfið
Gerð er krafa um faglega þekkingu á málefnum lögreglunnar og a.m.k. tveggja ára starfsreynslu innan lögreglu. Þá er gerð krafa um fjölbreytta starfsreynslu, t.d. hjá öðrum stjórnvöldum eða af fjármálamarkaði, sem og stjórnunarreynslu. Viðkomandi þarf að hafa stjórnunareiginleika og leiðtogafærni, getað starfað sjálfsætt og í teymi, hafa frumkvæði og færni í að tileinka sér nýjungar og vera nákvæmur í vinnubrögðum. 

Umsækjandi skal uppfylla almenn skilyrði 6. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 um ráðningu í starf í þjónustu ríkisins. Viðkomandi skal hafa lokið embættis- eða meistaraprófi í lögfræði. Önnur menntun, s.s. nám í stjórnun eða lögreglufræðum, er kostur.  
 
Umsækjendur þurfa að hafa gott vald á íslensku, framúrskarandi enskukunnáttu bæði í ræðu og riti og búa yfir góðri tölvukunnáttu. Auk lögfræðimenntunar er krafa gerð um reynslu og/eða þekkingu á sakamálaréttarfari, refsi-, lögreglu-, fjármuna- og fjármálamarkaðsrétti og rannsóknum mála. Reynsla af gerð hættumats af einhverju tagi er krafa, sem og menntun, þjálfun eða annars konar þekking á því sviði.    

Ráðningakjör eru skv. kjarasamningi Stéttarfélags lögfræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Starfshlutfall er 100%. 

Umsóknum skal skilað á netfangið [email protected] eða til embættis ríkislögreglustjóra, Skúlagötu 21, 101 Reykjavík, en umsóknarfrestur er til og með 10. október 2019. Umsókn skal fylgja ferilskrá og kynningarbréf þar sem fram kemur rökstuðningur um hæfi til að gegna umræddu starfi. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Tekið skal fram að umsóknir geta gilt í sex mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út. 

Í ljósi ríkjandi kynjahlutfalls innan lögreglu og jafnréttisáætlunar lögreglunnar eru konur sérstaklega hvattar til að sækja um. 

Ásgeir Karlsson aðstoðaryfirlögregluþjónn/Thelma Cl. Þórðardóttir yfirlögfræðingur veita nánari upplýsingar um starfið í síma 444-2500.

Vakin er athygli á því að engan má ráða til starfa hjá lögreglu sem hefur gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta. Til þess að staðreyna þetta er lögreglu heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu, sbr. 28. gr. a. lögreglulaga nr. 90/1996.


Reykjavík, 19. september 2019.
Ríkislögreglustjóri

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum