Hoppa yfir valmynd
20. september 2019 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Ráðherra skipar starfshóp um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmum bakteríum

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, hefur skipað starfshóp vegna átaks til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Starfshópnum er ætlað að gera aðgerðaráætlanir vegna sýklalyfjaónæmra baktería í dýrum, sláturafurðum og matvælum. Jafnframt að setja fram mismunandi valkosti við stefnu sem miðar að því að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur.

 

Framangreind vinna er hluti af átaki til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi sem Kristján Þór og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, settu af stað hinn 8. febrúar sl.  Jafnframt er þessi vinna hluti af aðgerðaáætlun um að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu sem unnið er eftir í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

 

Starfshópnum ber að skila matsgerð um mismunandi valkosti við stefnu sem miðar að því að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur eigi síðar en 1. febrúar nk. Þá ber hópnum að skila lokaskýrslu ásamt tillögum eigi síðar en 1. maí 2020.

 

Starfshópinn skipa:

·        Vigdís Tryggvadóttir, sérfræðingur Matvælastofnunar, formaður.

·        Karl G. Kristinsson, sérfræðingur Landspítala Háskólasjúkrahúss.

·        Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir, sérfræðingur Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

·        Kjartan Hreinsson, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

 

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

·        „Þessi hópur hefur þýðingarmikið hlutverk í því átaki sem við heilbrigðisráðherra settum af stað í febrúar sl. um að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Það er skýr stefna þessarar ríkisstjórnar að Ísland á að vera fararbroddi í aðgerðum á þessu sviði og með skipan þessa hóps erum við að fá okkar færustu sérfræðinga til forystu í þeirri vinnu.“

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 15 Líf á landi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira