Hoppa yfir valmynd
25. september 2019 Innviðaráðuneytið

Grunnur lagður að nýrri samstarfsáætlun um byggðamál

Embættismannanefnd um byggðanefnd í heimsókn á Borgarfirði eystri fyrr á árinu. - mynd

Norræna embættismannanefndin um byggðaþróun fundaði nýlega hér á landi en það var þriðji fundur nefndarinnar á formannsári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Á fundum nefndarinnar hefur verið lagður grunnur að nýrri samstarfsáætlun um byggðamál fyrir árin 2021-2024 í takt við framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar.

Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2019 og er yfirskrift formennskuáætlunarinnar „Gagnvegir góðir“. Innan Norrænu ráðherranefndarinnar starfa ellefu fagráðherranefndir (MR) á hinum ýmsu fagsviðum auk ráðherranefndar samstarfsráðherra. Þeim til aðstoðar eru sextán embættismannanefndir, þ.m.t. embættismannanefndin um byggðaþróun, og einn stjórnendahópur. Hátt í 170 norrænir og alþjóðlegir fundir og viðburðir fara fram á Íslandi á árinu í tengslum við formennskuna.

Norræna embættismannanefndin um byggðaþróun (EK-R) heyrir undir norrænu ráðherranefndina um sjálfbæran hagvöxt (MR-VÆKST). Um er að ræða samstarf Norðurlanda á sviði atvinnu-, orku- og byggðamála sem tryggja á áframhaldandi hagvöxt á svæðinu.

Nefndin ber ábyrgð á stjórnsýslu á sviði byggðaþróunar, í nánu samstarfi við skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn. Formennskulandið hefur umsjón með starfi nefndarinnar. Embættismannanefndin er vettvangur Norðurlanda til að deila reynslu og þekkingu, auk umræðna á jafningjagrundvelli sem stuðla að auknum tækifærum til stefnumótunar í löndunum. Þá sér hún um eftirfylgni við framkvæmd samstarfsáætlunarinnar.

Embættismannanefndin hefur fundað þrisvar undir formennsku Íslands. Fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn í Reykjavík í febrúar þar sem hópurinn kom saman og undirbjó starfið á árinu. Annar fundurinn fór fram á Egilsstöðum í húsakynnum Austurbrúar. Ferðin austur var jafnframt nýtt til að kynna verkefnið Brothættar byggðir. Farið var í heimsókn í Borgarfjörð eystri og sveitarstjórnarfólk þar kynnti reynslu sína af verkefninu. Þriðji fundur ársins var haldinn í Reykjavík á dögunum. Þá tók hópurinn einnig þátt í ráðstefnu um framtíð byggðaþróunar á Norðurlöndum sem haldin var í Háskólanum á Akureyri á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Byggðastofnunar og Nordregio. Fjórði og síðasti fundur embættismannanefndarinnar verður loks haldinn í nóvember. Samhliða verður ráðstefnan Nordregio Forum haldin í Hörpu undir yfirskriftinni „Skills for resilient regions“.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum