Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Öflugur vinnumarkaður krefst ólíkra einstaklinga

Ragnar Þór Ingólfsson, Flosi Eiríksson, Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Auður Alfa Ólafsdóttir og Elín Hinriksdóttir. - mynd

„Þú vinnur með ADHD“ er yfirskrift málþings um ADHD og vinnumarkaðinn sem haldið er á Grand hótel í dag á vegum ADHD samtakanna. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, setti málþingið og sagðist fastlega gera ráð fyrir því að á vinnumarkaði í dag sé fjöldi einstaklinga sem ekki hafi hlotið viðeigandi greiningu.

„Tiltölulega nýlega hefur orðið mikil breyting á viðhorfi til ADHD greininga og meðferða og er það vel. Sú viðhorfsbreyting er án efa að töluverðu leyti að þakka störfum þessara samtaka. Fullorðið fólk getur nú loksins fengið skýringar á erfiðleikum sem hafa truflað það svo lengi sem það man og hafa mögulega einnig haft áhrif á skólagöngu þess og þátttöku á vinnumarkaði,“ sagði Ásmundur Einar.

ADHD er meðfædd röskun og henni geta fylgt ýmsar áskoranir ef ekki fylgir réttur stuðningur og aðstoð.  Í skóla getur verið um að ræða náms- og/eða hegðunarvanda auk þess sem ADHD getur haft áhrif á félagslega stöðu og sjálfsmynd. „Ég tel því afar mikilvægt að styðja við börn og fjölskyldur þar sem ADHD hefur gert vart við sig og koma þannig í veg fyrir eða minnka verulega líkur á óþarfa vanda og vanlíðan til lengri eða skemmri tíma.“

Sögur fullorðinna einstaklinga með ADHD benda til þess að röskunin geti haft áhrif á þátttöku þeirra á vinnumarkaði. Starfsferill þeirra getur orðið slitróttur og tilviljanakenndur og eru dæmi um að fólk með ADHD starfi við eitthvað sem er kannski ekki í samræmi við raungetu eða greind. „Ég veit til þess að einstaklingar sem hafa fengið ADHD greiningu geta leyst ákveðin verkefni betur en aðrir og finna ef til vill lausnir sem aldrei hefðu komið til ef þeim hefið verið haldið inni í kassanum, eins og það er stundum orðað. Þeim má mörgum hverjum þakka einhverjar mestu vísindaframfarir heims.“

Ásmundur Einar sagði að við sem samfélag þyrftum að fagna fjölbreytileikanum og þeim sem fara stundum út fyrir kassann. „Við þurfum að lyfta styrkleikum hvers og eins og styðja við þar sem þess er þörf. Því rétt eins og á við um börn þá getur það haft mikil áhrif hvernig stuðning fullorðinn einstaklingur með ADHD fær vegna sinnar röskunar. Til að skapa öflugan vinnumarkað þurfum við ólíka einstaklinga sem taka þátt miðað við sína getu.“

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum