Hoppa yfir valmynd
3. desember 2019 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Vitundarvakning um aðlögun samgönguinnviða að loftslagsbreytingum

Ásta Þorleifsdóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu flytur erindi á ráðstefnu Efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu (UNECE). - mynd

Nýlega fór fram ráðstefna í Aþenu á vegum Efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, UNECE, um aðlögun samgöngukerfa að loftslagsbreytingum undir yfirskriftinni: „Raising awareness on adaptation of transport infrastructure to climate change impacts." Á ráðstefnunni fjölluðu sérfræðingar víða að um loftslagsbreytingar og mikilvægi þess að samgöngukerfi og samgöngurnar sjálfar séu viðbúin.

Meðal þess sem var á dagskrá voru áhrif hitasveifla á ýmsa innviði, aukin tíðni veðuröfga svo sem úrhelli, fannfergi, stormar og vindsveipir, eldingaveður og haglél, fellibyljir og sjávarflóð. Þá var sjónum beint að hækkandi sjávarstöðu og mikilvægi þess að mannvirki væru byggð á grundvelli bestu rannsóknaganga og spálíkana. 

Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni var Ásta Þorleifsdóttir, sérfræðingur hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, en ráðuneytið hefur tekið þátt í starfshópi UNECE um aðlögun samgöngukerfa að loftslagsbreytingum undanfarin ár.

Ásta gerði grein fyrir þeim áskorunum vegna áhrifa loftslagsbreytinga á mannvirki og við strendur Íslands. Ísland býr við mikla sérstöðu þar sem að minnkandi jökulfarg veldur hröðu landrisi á Suðausturlandi, meðan að hægfara landsig er ríkjandi á suðvesturhorninu. Áhrif hækkandi sjávarstöðu eru breytileg eftir landslagi og landshlutum. Þá var gerð grein fyrir fyrstu verkefnum sem áformuð eru á aðlögunaráætlun í samgöngum. Fyrra verkefnið er net sjávarborðsmæla til að fylgjast með sjávarstöðubreytingum og geta brugðist við  með aðgerðum í tíma. Seinna verkefnið felst í því að reikna út líkur á sjávarflóðum, það er samlíkur á veðurátt, ölduhæð og áhlaðanda miðað við nokkrar sviðsmyndir um sjávarstöðuhækkun fram að aldamótum.

  • Ásta Þorleifsdóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu flytur erindi á ráðstefnu Efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu (UNECE).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira