Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Græn umskipti, loftslag og efnamál til umræðu á fundi norrænna umhverfisráðherra

Ráðherrafundurinn fór fram í gegn um fjarfundabúnað. - mynd

Græn umskipti í samfélaginu í kjölfar COVID-19 faraldursins voru í brennidepli á fundi umhverfisráðherra Norðurlanda í dag. Þá voru loftslagsmál, plastmengun í hafi, efnamál og grænar fjárfestingar meðal umræðuefna ráðherranna.

Á fundinum, sem haldinn var með fjarfundatækni, ræddu ráðherrarnir meðal annars um mikilvægi þess að aðgerðir Norðurlandanna í kjölfar kórónuveirufaraldursins verði ekki til þess að veikja baráttuna gegn loftslagsbreytingum.

„Það var ánægjulegt að finna samstöðuna meðal norrænu umhverfisráðherranna um að endurreisnin eftir COVID þurfi að vera með grænum og loftslagsvænum formerkjum. Þar skipta grænar fjárfestingar miklu máli. Ég fagna einnig ákvörðun okkar um áframhaldandi vinnu á vettvangi Norðurlandanna í að vinna að nýjum alþjóðlegum samningi um varnir gegn plastmengun.“, segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Rætt var hvernig Norðurlönd geta hvatt opinbera aðila og einkafjárfesta til að auka grænar og loftslagstengdar fjárfestingar og leggja þannig sitt af mörkum til þeirrar grænu endurreisnar sem þörf er á í heiminum nú. Almennt er talið að meðal einkafjárfesta á Norðurlöndum sé mikill áhugi og möguleikar á grænum fjárfestingum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis og auðlindaráðherra greindi á fundinum frá helstu aðgerðum sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til í umhverfis- og loftslagsmálum að undanförnu, s.s. auknar fjárfestingar í innviðum fyrir orkuskipti, fjármögnun í skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis, aukið fjármagn til grænnar nýsköpunar í gegnum Loftslagssjóð og fjárstuðning til sveitastjórna vegna fráveituframkvæmda.

Einnig sat fundinn fulltrúi breskra stjórnvalda sem verða gestgjafar næstu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP-26 sem fyrirhuguð var í Glasgow í nóvember en hefur verið frestað til ársins 2021. Norrænu ráðherrarnir notuðu tækifærið á fundi sínum í dag til að lýsa yfir fullum stuðningi við áform bresku gestgjafanna um að tryggja að ráðstefnan verði metnaðarfull og árangursrík svo tryggja megi eftirfylgni Parísarsamningsins.

Þá samþykktu ráðherrarnir sameiginlega yfirlýsingu um áherslur við endurnýjun SAICM-samstarfsins, sem er ætlað að tryggja örugga notkun og meðhöndlun efnavara á alþjóðavísu. Yfirlýsingin tekur m.a. til hringrásarhagkerfisins og stjórnun úrgangsmála þar sem áhersla er lögð á sameiginlega ábyrgð ríkisstjórna, atvinnulífs, iðnaðar og almennings við stjórnun efnamála.

Á fundi sínum í Reykjavík í apríl í fyrra samþykktu umhverfisráðherrar Norðurlandanna að hvetja til og vinna að því að komið verði á fót nýjum alþjóðlegum samningi til að draga úr og fyrirbyggja losun plasts og örplasts í hafið. Ráðherrarnir ákváðu í dag að fylgja þessu eftir m.a. með því að láta gera úttektir á annars vegar mögulegum fjármögnunarleiðum vegna slíks samnings og hins vegar á því hvernig nýta má vísindi sem tæki til að undirbyggja stefnumótun í þessum málum.

 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra á fjarfundi norrænna umhverfisráðherra.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum