Hoppa yfir valmynd
13. maí 2020 Forsætisráðuneytið

Fyrstu heildarlögin um vernd uppljóstrara samþykkt á Alþingi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra - mynd

Alþingi samþykkti í gær frumvarp forsætisráðherra um vernd uppljóstrara sem lagt var fyrir þingið síðastliðið haust. Þetta eru fyrstu heildarlögin um þetta efni en frumvarpið var samið af nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis sem forsætisráðherra skipaði vorið 2018.

Lögin taka gildi um næstu áramót  en þau ná til uppljóstara óháð því hvort sem þeir starfa hjá hinu opinbera eða á einkamarkaði. Þau gilda um starfsmenn sem greina í góðri trú frá upplýsingum eða miðla gögnum um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda þeirra.

Gerður er greinarmunur á milli innri og ytri uppljóstrunar og miðað við að hið síðarnefnda sé jafnan ekki heimilt nema hið fyrrnefnda hafi verið reynt til þrautar og um sé að ræða brot sem varðar fangelsisrefsingu eða í húfi séu afar brýnir almannahagsmunir.

Samkvæmt lögunum telst miðlun upplýsinga eða gagna, að uppfylltum skilyrðum frumvarpsins, ekki brot á þagnar- eða trúnaðarskyldu starfsmanns. Hún leggi hvorki refsi- né skaðabótabyrgð á hann og geti ekki heldur leitt til stjórnsýsluviðurlaga eða íþyngjandi úrræða að starfsmannarétti.

Þá er lagt sérstakt bann við því að láta hvern þann sæta óréttlátri meðferð sem miðlað hefur upplýsingum eða gögnum samkvæmt skilyrðum laganna. Lögð er sönnunarbyrði á atvinnurekanda á þann hátt að ef líkur eru leiddar að óréttlátri meðferð skal hann sýna fram á að sú sé ekki raunin og greiða skaðabætur ef það tekst ekki.

Mælt er fyrir um að veita skuli starfsmanni gjafsókn komi til ágreinings fyrir dómi um það hvort miðlun hans á gögnum eða upplýsingum hafi samrýmst skilyrðum frumvarpsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum