Hoppa yfir valmynd
19. júní 2020 Forsætisráðuneytið

Athugun á vísitölu neysluverðs

Í aðdraganda Lífskjarasamningsins fjölluðu samningsaðilar og stjórnvöld um verðtryggingu fjárskuldbindinga, einkum húsnæðislána. Samhliða undirritun Lífskjarasamningsins gaf ríkisstjórnin út sérstaka yfirlýsingu um markviss skref til afnáms verðtryggingar. Einn liður yfirlýsingarinnar kvað á um athugun sem lokið skyldi fyrir lok júní 2020 á aðferðafræði við útreikning vísitölu neysluverðs m.a. húsnæðislið vísitölunnar og mat á svokölluðum vísitölubjaga út frá alþjóðlegum samanburði, með aðstoð erlendra sérfræðinga.

Forsætisráðherra skipaði í júní 2019 nefnd fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, Hagstofu Íslands, Seðlabanka Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og allra heildarsamtaka á almennum og opinberum vinnumarkaði til að gera þessa athugun. Nefndin leitaði til dr. Kim Zieschang, ráðgjafa og sérfræðings í verðvísitölum, til að leggja mat á aðferðafræði við mælingar á húsnæðislið vísitölu neysluverðs.

Um húsnæði í vísitölu neysluverðs

Húsnæði vegur þungt í útgjöldum heimila á Íslandi líkt og víða annars staðar. Af þeirri ástæðu er húsnæði hluti vísitölu neysluverðs en vægi húsnæðisliðar í vísitölunni nam 30,8% í mars 2020. Hagstofan safnar upplýsingum um greidda leigu fyrir leiguhúsnæði til að leggja mat á þróun kostnaðar við búsetu í leiguhúsnæði en flóknara er að meta breytingar á virði þess að búa í eigin húsnæði þar sem engin bein greiðsla fer fram fyrir þá þjónustu. Ríki með umfangsmikla leigumarkaði nota almennt þá aðferð að yfirfæra virði greiddrar húsaleigu á húsnæði sem er í notkun eigenda sinna. Sú aðferð, að reikna húsaleiguígildi við mat á kostnaði við að búa í eigin húsnæði, hefur ekki verið notuð á Íslandi vegna smæðar leigumarkaðar sem hingað til hefur ekki verið talinn endurspegla nægjanlega vel þann stóra meirihluta íbúðarhúsnæðis sem er í notkun eigenda sinna. Þess í stað hefur reiknuð leiga eigin húsnæðis verið metin með aðferð sem nefnist einfaldur notendakostnaður. Nokkur önnur ríki nota einfaldan notendakostnað við útreikning verðbreytinga á þjónustu vegna húsnæðis í notkun eigenda sinna.

Helstu niðurstöður:

  • Í greinargerð Dr. Zieschang kemur fram að aðferðafræði við útreikning á húsnæðislið vísitölunnar sé í samræmi við alþjóðleg viðmið um þennan þátt og aðstæður hér á landi.
  • Dr. Zieschang veltir upp hugmyndum um hvort hægt sé að meta kostnað vegna búsetu í eigin húsnæði þannig að liðurinn taki meira mið af langtímavæntingum og verði með þeim hætti stöðugri gagnvart skammtímasveiflum í húsnæðisverði. Nefndin telur æskilegt að Hagstofan rýni þessar hugmyndir frekar m.t.t. þesshvort þær geti leitt til umbóta á mælingunni.
  • Þá hvetur nefndin Hagstofuna, í ljósi umfjöllunar dr. Zieschang, til að greina hvort aðstæður á leigumarkaði hafi þróast með þeim hætti á undanförnum árum að aðferð húsaleiguígilda gæti leyst af hólmi aðferð einfalds notendakostnaðar í heild eða gagnvart afmörkuðum hluta íbúðarhúsnæðis.

Um meðhöndlun bjaga í vísitölu neysluverðs

Með bjaga er átt við verðbreytingar sem mælast kerfisbundið of miklar eða of litlar í samanburði við raunverulega niðurstöðu. Góð þekking er á aðstæðum sem geta stuðlað að bjaga í verðvísitölum. Að sama skapi er ágæt þekking á því hvernig hægt er að mæta slíkum aðstæðum og koma í veg fyrir uppsöfnun bjaga. Slíkar aðferðir hafa verið þróaðar í alþjóðlegu samstarfi um verðtölfræði og hafa verið innleiddar í mælingar vísitölu neysluverðs á Íslandi.

Erfitt er að meta umfang bjaga þótt fræðileg tilvist hans sé viðurkennd. Bjagi getur til dæmis myndast vegna staðkvæmni, breyttra verslunarhátta heimila, nýrra neysluvara eða þjónustu og  breytinga á vörugæðum.

Helstu niðurstöður:

  • Nefndin telur að Hagstofa Íslands beiti tiltækum aðferðum til að sporna gegn uppsöfnun bjaga í mælingum vísitölu neysluverðs og því sé ekki ástæða til að ætla að hann sé stærra vandamál á Íslandi en í öðrum löndum. Þar munar mestu um árleg grunnskipti sem tryggja að vísitala neysluverðs fylgi raunverulegri neysluhegðun og notkun margfeldismeðaltals í grunnliðum. Mikilvægt er að tryggja að svo verði áfram með því að fylgjast með þróun bjaga og aðferða til að mæta honum, sem og að mæla umfang hans eftir því sem við verður komið.

Aðferðafræði við útreikning vísitölu neysluverðs - skýrsla nefndar.

Heimsmarkmiðin

10. Aukinn jöfnuður
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum