Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2020 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór ávarpaði sameiginlega þingmannanefnd Íslands og Evrópuþingsins

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, á fundinum í dag. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók í dag þátt í reglulegum fundi sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópuþingsins. Formaður þingmannanefndar Íslands, Sigríður Andersen, stjórnaði fundinum ásamt formanni þingmannanefndar ESB, Andreas Schwab.

Í ávarpi sínu lýsti utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ánægju með samstarf Íslands og ESB á vettvangi EES og lagði áherslu á virka þátttöku Alþingis í rekstri samningsins. Guðlaugur Þór ræddi einnig skilyrði fyrir viðskipti með fisk og landbúnaðarvörur á innri markaðnum, reynsluna af landbúnaðarsamningnum frá 2015, áhrif þess að Bretland dragi sig út úr honum við útgöngu úr Evrópusambandinu og framtíðarviðræður við Bretland.

„Evrópusambandið er einn helsti samstarfsaðili Íslands. Okkar hagsmunum er áfram best borgið með samvinnu við ESB á grundvelli EES-samningsins,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra eftir fundinn.

Önnur mál á dagskrá fundarins voru samræmdar sóttvarnaraðgerðir ESB og þróun Schengen-samstarfsins.

Alþingi og Evrópuþingið hafa átt með sér samstarf og haldið reglulega samráðsfundi allt frá árinu 1987. Eftir að aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins hófust var stofnað til sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins árið 2010. Hin sameiginlega þingmannanefnd var eins konar uppfærsla á því samstarfi sem Alþingi og Evrópuþingið höfðu þegar átt um langt árabil. Þrátt fyrir að aðildarviðræðum hafi verið hætt starfar nefndin áfram, enda er hlutverk hennar að fjalla um samskipti Íslands og Evrópusambandsins á breiðum grunni. Árið 2016 var starfsreglum hennar breytt og vísanir í aðildarferlið teknar út að frumkvæði núverandi utanríkisráðherra sem þá gegndi formanns nefndarinnar af hálfu Alþingis.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum