Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2020

Embætti lögreglustjórans á Vesturlandi laust til umsóknar

Embætti lögreglustjórans á Vesturlandi laust til umsóknar


Auglýst er laust til umsóknar embætti lögreglustjórans á Vesturlandi.

Lögreglustjórinn á Vesturlandi fer með stjórn lögregluliðs í sínu umdæmi. Hann annast daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæminu og ber ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess.

Umsækjendur skulu fullnægja skilyrðum 2. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.

Aðrar hæfniskröfur eru:
Góð þekking og yfirsýn yfir verkefni lögreglunnar æskileg
Góð þekking og/eða reynsla af störfum innan stjórnsýslunnar æskileg
Rekstrarþekking og/eða reynsla af rekstri æskileg
Farsæl reynsla af stjórnun og stefnumótun æskileg
Framúrskarandi forystu-, samvinnu- og samskiptahæfni
Fagmennska, frumkvæði, drifkraftur og jákvæðni
Mjög gott vald á íslensku og ensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti
Þekking á einu Norðurlandamáli æskileg

Dómsmálaráðherra skipar lögreglustjóra til 5 ára í senn, sbr. lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Miðað er við að skipað verði í embættið frá og með 15. janúar 2020. Um laun og starfskjör lögreglustjóra fer eftir ákvörðun með lögum sbr. 6. og 7. mgr. 24. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.


Upplýsingar um starfið veitir Haukur Guðmundsson ráðuneytisstjóri í síma 545 9000.


Umsóknarfrestur er til og með 14. desember 2020. Dómsmálaráðuneytið hefur ákveðið að fela nefnd að fara yfir þær umsóknir sem berast og á nefndin að skila ráðherra rökstuddu áliti á hæfni umsækjenda. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun liggur fyrir.
Umsóknum skal skila rafrænt á [email protected]


Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um: 1) menntun, 2) reynslu af stjórnun, 3) reynslu af lögmannsstörfum, saksókn og/eða dómstörfum, 4) reynslu af stjórnsýslustörfum, 5) upplýsingar um samskiptafærni og sjálfstæði, 6) aðrar upplýsingar sem varpað geta ljósi á faglega eiginleika og færni umsækjanda sem máli skipta fyrir störf lögreglustjóra. Með umsókn skulu fylgja afrit af prófskírteinum og upplýsingar um umsagnaraðila.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum