Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mikilvæg auðlind: Börn með annað móðurmál en íslensku

Ein mikilvægasta auðlind allra samfélaga eru börnin, enda ræðst framtíðin með þeim. Í upphafi kjörtímabilsins einsetti ég mér að móta mun sterkari umgjörð kringum börn með annað móðurmál en íslensku, en margt bendir til að þörfum þeirra hafi ekki verið mætt sem skyldi. Slíkt er með öllu óviðunandi, því öll börn eiga jafnan rétt á tækifærum til að blómstra og það er skylda samfélagsins að veita þeim stuðning sem þurfa. Allir skipta máli og allir geta lært. Ég skipaði því okkar færustu sérfræðinga í starfshóp, sem fékk það hlutverk að móta heildarstefnu fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. 

Starfshópurinn aflaði gagna og kortlagði stöðu nemendanna í leik-, grunn- og framhaldsskólum og skoðaði viðeigandi lagaramma, áætlanir og aðrar stefnur. Rýnt var í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda, þingsályktun um íslenska tungu og íslenska málstefnu og ályktanir íslenskrar málnefndar. Að auki skoðaði hópurinn lög og helstu stefnuskjöl í málaflokknum í nágrannalöndum okkar, ásamt því að skoða alþjóðlegar skuldbindingar sem snerta nemendahópinn, t.d. Barnasáttmála og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Rík áhersla var lögð á rýna niðurstöður innlendra og erlendra rannsókna, kanna og greina viðhorf nemenda af erlendum uppruna, foreldra þeirra og starfsfólks skóla til skólagöngu nemendahópsins. 

Að lokinni umfangsmikilli vinnu hefur starfshópurinn skilað drögum að heildstæðri stefnu og gert tillögur að markvissum aðgerðum, til að styrkja stöðu barnanna. Meginhugsunin í drögunum, er að fjölbreytni í nemendahópnum skuli fagna enda efli hún skólastarfið og ólíkir styrkleikar barna skapi margvísleg tækifæri til framþróunar og leiði til betri menntunar.  

Snemmbær stuðningur
Lagt er til að börn og ungmenni sem læra íslensku sem annað mál, fái íslenskukennslu við hæfi og viðeigandi stuðning í námi svo lengi sem þörf er á. Lögð verði áhersla á að þau geti sem fyrst stundað nám jafnfætis jafnöldrum sínum sem eiga íslensku að móðurmáli. Strax í leikskólum skal huga sérstaklega að málörvun á íslensku og fylgst með því hvort þau taki reglulegum framförum.

Samfellt nám
Mikilvægt er að samfella milli leik-, grunn- og framhaldsskóla og frístundaheimila sé í öndvegi til að tryggja að byggt verði á markvissan hátt á fyrri reynslu og færni barnanna
frá einu skólastigi yfir á annað. Lagt er til að unnið verði markvisst að því að styrkja leikskólastigið, auka þátttöku barna af erlendum uppruna í starfi frístundaheimila og fjölga tækifærum nemenda af erlendum uppruna til að stunda og ljúka námi í framhaldsskólum.

Samstarf við foreldra
Brýnt er að litið verði á menningu og móðurmál barnanna sem auðlind sem komi þeim sjálfum og samfélaginu til góða. Foreldrar eru mikilvægir samstarfsaðilar sem búa yfir ómetanlegri þekkingu sem nýta þarf í þágu barnanna. Lagt er til aukið samstarf við foreldra með það að leiðarljósi að auka virkni barna af erlendum uppruna.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd
Áhersla er lögð á að börnum og ungmennum í leit að alþjóðlegri vernd verði tryggð menntun og skólaganga eins fljótt og unnt er, í samræmi við aldur þeirra og þroska. Miða skuli við að ekki líði meira en fjórar vikur frá því að barn sækir um alþjóðlega vernd þar til það hefur fengið skólaúrræði.

Menntun kennara
Tryggja þarf að kennsla barna og ungmenna af erlendum uppruna verði hluti af grunnmenntun allra kennara og tómstunda- og félagsmálafræðinga. Jafnframt að kennarar,
skólastjórnendur og starfsfólk frístundaheimila sæki símenntun og starfsþróun um
fjölmenningu og kennslu barna með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn.

Menntarannsóknir
Við þurfum að koma á fót markvissu átaki til að efla menntarannsóknir sem leið til að stuðla
að gæðum í skólakerfinu og sjónum sérstaklega beint að börnum með annað móðurmál en íslensku.

Tillögur og markmiðasetning er til alls fyrst, en brýnt er að koma hugmyndum í framkvæmd og bæta sem fyrst stöðu barna með íslensku sem annað tungumál. Áðurnefndur starfshópur vinnur nú að Hvítbók í málaflokknum, sem tekur mið af fjölbreyttum hópi nemenda frá ólíkum menningarheimum, og ég er sannfærð um að sú vinna mun bera góðan ávöxt.

Þau samfélög eru sterkust og samkeppnishæfust til framtíðar sem nýta krafta þegna sinna best. Þau samfélög eru líklegust til að skapa velsæld og hamingju, viðeigandi atvinnustig og eftirsóknarverð lífsgæði. Ísland er í kjörstöðu hvað það varðar, þar sem velferðarsamfélagið er öflugt fyrir en óvirkjaðir kraftar bíða enn beislunar. Ég hlakka til að sjá þá virkjaða, til heilla fyrir þjóðina alla. 

-

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu, þann 27. nóvember 2020

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum