Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2022 Dómsmálaráðuneytið

Starfshópur skoðar atkvæðagreiðslu utan kjörfundar

Starfshópur skoðar atkvæðagreiðslu utan kjörfundar - myndHaraldur Jónasson / Hari

Innanríkisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að taka til skoðunar atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða VII í nýjum kosningalögum nr. 112/2021.

Skal starfshópurinn taka til skoðunar framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar hjá embættum sýslumanna og reynsluna af henni, einnig þar sem sveitarfélög hafa tekið að sér umsjón með atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á landsbyggðinni. Þá skal starfshópurinn leggja mat á aðgengi og þörf fyrir þessa þjónustu eftir byggðarlögum í ljósi opnunartíma, vegalengda og fjölda kjósenda, meta hver væri best til þess fallinn að bera ábyrgð á utankjörfundaratkvæðagreiðslum og að veita þjónustuna. Einnig skal starfshópurinn kanna áhrif rafrænnar kjörskrár á framkvæmd atkvæðagreiðslna utan kjörfundar. Loks skal starfshópurinn skoða skiptingu kostnaðar við verkefnið milli sýslumanna og sveitarfélaga.

Í starfshópnum eiga sæti: Hjördís Stefánsdóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu sem jafnframt er formaður hópsins, Birna Ágústsdóttir, tilnefnd af sýslumannaráði, varamaður hennar er Lárus Bjarnason og Kristinn Jónasson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, varamaður hans er Fjóla Valborg Stefánsdóttir.

Starfshópurinn skili ráðherra niðurstöðum sínum ásamt tillögum til úrbóta fyrir 1. september 2022.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum