Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2022 Forsætisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skipan húsnæðismála hjá Stjórnarráði Íslands

Forsætisráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið hafa undanfarna mánuði unnið að greiningu á framtíðarskipan húsnæðismála Stjórnarráðsins. Nú liggja fyrir tillögur um skipulag húsnæðismála til lengri og skemmri tíma.

Markmiðið er að starfsemi Stjórnarráðsins verði komið fyrir í sveigjanlegu og nútímalegu húsnæði sem nýtt verður með hagkvæmum hætti. Einnig er lögð áhersla á að ráðuneytin verði staðsett í námunda við hvert annað til að styrkja samstarf þeirra og skapa tækifæri til hagræðingar og samnýtingar á þjónustu.

Skipulag til lengri tíma

Til lengri tíma er gert ráð fyrir að starfsemi Stjórnarráðsins verði í stærri og sveigjanlegum einingum á og við Stjórnarráðsreit. Um er að ræða Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu auk viðbyggingar, Skúlagötu 4, Sölvhólsgötu 4, Sölvhólsgötu 7-9, Arnarhvol við Lindargötu og Norðurhús á Austurbakka auk þess sem Gamla Hæstaréttarhúsið við Lindargötu verður nýtt undir sameiginlega aðstöðu.

Þessar eignir er samtals um 27 þúsund fermetrar sem geta auðveldlega rúmað starfsemi allra ráðuneyta auk Umbru, þjónustumiðstöðvar Stjórnarráðsins. Samhliða þessum áformum verður hægt að losa húsnæði, bæði í eigu ríkisins og leiguhúsnæði, sem er alls rúmlega 11 þúsund fermetrar að stærð. Heildaráhrif þessara breytinga eru að húsnæði Stjórnarráðsins minnkar um a.m.k. 3 þúsund fermetra.

Úrlausnarefni til skemmri tíma

Til skemmri tíma þarf að leysa húsnæðismál nokkurra ráðuneyta á meðan unnið er að varanlegri lausn. Framkvæmdum sem staðið hafa yfir við Skúlagötu 4 verður hraðað og fjárveitingar sem eyrnamerktar hafa verið viðhaldi og endurbótum fasteigna ríkisins 2022 og 2023 nýttar til þess. Því mun starfsemi matvælaráðuneytisins og menningar- og viðskiptaráðuneytisins flytjast í bráðabirgðahúsnæði á meðan þessum framkvæmdum stendur.

Heilbrigðisráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið munu einnig flytjast í tímabundið leiguhúsnæði. Gert er ráð fyrir að þessi tvö ráðuneyti flytji svo í Skúlagötu 4 þegar framkvæmdum þar er lokið.

Þá er stefnt að því að hefja formlegar samningaviðræður við Landsbankann um kaup á norðurhúsinu við Austurbakka sem er í byggingu þar sem kannað verði til hlítar hvort hægt sé að ná fram hagkvæmri niðurstöðu um kaup ríkisins á eigninni. Um er ræða nútímalegt og sveigjanlegt skrifstofuhúsnæði sem hægt er að sérsníða að þörfum Stjórnarráðsins innan tiltölulega skamms tíma og er því um álitlegan kost að ræða.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum