Hoppa yfir valmynd
14. mars 2022

Fastafulltrúi á hliðarviðburði við 65. þing fíkniefnanefndar SÞ

Kristín A. Árnadóttir fastafulltrúi og Inga Dóra Sigfúsdóttir prófessor - mynd

65. þing fíkniefnanefndar Sameinuðu þjóðanna er haldið á vettvangi fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNODC) í Vínarborg, 14.-18. mars.

Fastanefnd Íslands í Vínarborg var ein af skipuleggjendum á hliðarviðburði við þingið ásamt stjórnvöldum Chile, fulltrúum frá UNODC, Planet Youth og fleiri hagsmunasamtökum.

Viðburðurinn fjallaði um leiðir til að auka félagsauð með því að nýta jákvæða þætti í forvörnum gegn því að ungt fólk byrji að neyta fíkniefna. Þá var rætt hvernig árangursríkar forvarnir feli í sér að styðja við og efla heilsu og vellíðan samfélaga og að styrkja félagsauð í víðu samhengi. Rannsóknir sýna að fjölskyldur, tómstundir og samfélagsþættir sem auka vellíðan ungs fólks skipta miklu máli í forvörnum.

 Fastafulltrúi, Kristín A. Árnadóttir opnaði fundinn með ávarpi þar sem hún greindi frá tilurð íslenska forvarnarmódelsins og hve mikilvægt það er að bregðast við auknu umróti í heiminum og stríði í Evrópu í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu með aukinni áherslu á forvarnir samhliða sterkum aðgerðum til stuðnings flóttafólki og viðkvæmum hópum svo sem börnum og ungmennum. Skýrt kom fram í umræðu fólks alls staðar að í heiminum á hliðarviðburðinum, að íslenska forvarnarmódelið virkar þvert á landamæri og samfélög.

„Raunin er sú að alls staðar í heiminum er ungt fólk í viðkvæmri stöðu gagnvart misnotkun og áróðri hvað varðar fíkniefni. Þetta er ört vaxandi vandamál um allan heim. Þó samfélögin okkar séu ólík, þá eiga fjölskyldur hvar sem er í heiminum flest sameiginlegt.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum