Hoppa yfir valmynd
28. mars 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Yfirlýsing norrænna heilbrigðisráðherra um viðbúnað gegn heilbrigðisvá

Frá undirritun sameiginlegrar yfirlýsingar norrænna heilbrigðisráðherra - myndStjórnarráðið

Heilbrigðisráðherra Norðurlandanna vilja efla norrænt samstarf til að styrkja heilbrigðisviðbúnað og viðnámsþol Norðurlandaþjóðanna og Evrópu í heild. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sótti fund norrænna heilbrigðisráðherra í Stafangri fyrir helgi þar sem ráðherrarnir undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu þessa efnis. Yfirlýsingin byggir á sameiginlegri yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlandaþjóðanna um eflingu norrænna almannavarna.

Fyrir undirritun yfirlýsingarinnar áttu ráðherrarnir rafrænan fund með Stellu Kyriakides, framkvæmdastjóra heilbrigðis- og fæðuöryggismála hjá Evrópusambandinu þar sem rætt var um möguleikana á nánara norrænu samstarfi og hvað Norðurlönd geti lagt til heilbrigðisviðbúnaðar í Evrópusambandinu. Meðal annars var fjallað um þau úrlausnarefni sem fylgt hafa heimsfaraldri COVID-19 og einnig í tengslum við ástandið í Úkraínu. Þeir eru sammála um að Norðurlandaþjóðirnar geti margt lært hver af annarri í ljósi reynslunnar og að Evrópusamstarf hafi reynst nauðsynlegt til að takast á við þá vá sem Norðurlandaþjóðirnar og Evrópa í heild hafa staðið frammi fyrir. Í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra er því lögð áhersla á að aukið norrænt samstarf um heilbrigðisviðbúnað sé liður í evrópsku samstarfi. 

Aukið samstarf á mörgum sviðum

Heilbrigðisráðherrarnir vilja aukinn kraft í samstarf um viðbúnað í heilbrigðismálum á nokkrum sviðum eins og fram kemur í yfirlýsingu þeirra. Eru þar sérstaklega nefnd skipti á heilbrigðisgögnum, viðvarandi stöðumat, aukin samskipti, samræmdar viðbúnaðaræfingar og miðlun reynslu og sameiginlegar rannsóknir til að kortleggja nýsköpun og getu til þróunar og framleiðslu á bóluefnum. Þess má geta að fyrr á þessu ári ákváðu Norðurlandaþjóðirnar að ráðast í greiningu á sameiginlegri getu sinni til að þróa og framleiða bóluefni og fýsileika norræns samstarfs til nýsköpunar á því sviði. Gert er ráð fyrir að sameiginleg skýrsla Norðurlandaþjóðanna um þetta efni verði tilbúin í maí næstkomandi og að tillögur til norrænu ráðherranna um samstarf á þessu sviði verði kynntar í framhaldinu.

Yfirlýsing norrænu heilbrigðisráðherra ásamt nánari upplýsingum um fund þeirra er aðgengileg á vef norrænu ráðherranefndarinnar

  • Rafrænn fundur ráðherranna með Stellu Kyriakides, framkvæmdastjóra heilbrigðis- og fæðuöryggismála hjá ESB  - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum