Hoppa yfir valmynd
31. mars 2022 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra á ferð um Norðurland og Austurland

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra mun í vikunni heimsækja og kynna sér starfsemi nokkurra stofnana sem heyra undir dómsmálaráðuneyti á Austurlandi og Norðurlandi.
Fyrst mun ráðherra heimsækja héraðsdóm Austurlands og lögreglustjórann á Austurlandi og síðan starfsstöðvar sýslumanns á Seyðisfirði, Egilsstöðum og Eskifirði þar sem hann hittir starfsfólk. Eins og kunnugt er stendur fyrir dyrum gagnger endurskoðun á embættum sýslumanna og er stefnt að því að efla hlutverk starfsstöðva sýslumanna á landsbyggðinni með niðurfellingu umdæmismarka og aukinni stafrænni þjónustu. Ráðherra fer einnig í heimsókn til héraðsdóms Austurlands og til lögreglustjórans á Austurlandi.

Landhelgisgæslan hefur sent ráðherra boð um að taka þátt í skipulögðu löggæslu- og eftirlitsflugi þyrlusveitarinnar á Austurlandi á fimmtudag. Flogið verður norður með landinu og gefst ráðherranum kostur á að sjá hvernig eftirliti með landhelginni úr lofti yfir sjó er háttað. Í eftirlitsflugum þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar er meðal annars fylgst með veiði, hugsanlegri mengun og almennri skipaumferð. Að loknu eftirlitsfluginu mun ráðherra kynna sér aðstöðu Landhelgisgæslunnar á Siglufirði.

Á Siglufirði fundar ráðherrann með starfsfólki sýslumanns og heimsækir í framhaldinu starfsstöðvar sýslumanns á Sauðárkróki og Blönduósi. Á föstudeginum er förinni heitið til Húsavíkur og Akureyrar og verða dómstólar og lögreglustöðvar heimsóttar ef tími gefst til. Á Akureyri mun dómsmálaráðherra líta inn á vinnustofu vegna barna í viðkvæmri stöðu.

Ferð ráðherra stendur yfir frá miðvikudegi til föstudags.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum