Hoppa yfir valmynd
18. október 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Vel heppnuð alþjóðleg ráðstefna um fjármögnun heilbrigðiskerfa

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ávarpar ráðstefnu PCSI samtakanna - mynd

Dagana 27.-30. september síðastliðinn stóð heilbrigðisráðuneytið fyrir 35. ráðstefnu alþjóðlegu samtakanna PCSI (Patient Classification Systems International) á Hótel Hilton í Reykjavík. Rúmlega 250 gestir frá 27 löndum sóttu ráðstefnuna. Efni hennar tengist innleiðingu þjónustutengdrar fjármögnunar heilbrigðisþjónustu (DRG) hér á landi, en þema ráðstefnunnar snerist um hvernig aðferðafræði DRG getur verið grundvöllur sjálfbærrar heilbrigðisþjónustu. Ráðstefnan var haldin í samvinnu við Nordic Casemix Centre sem er miðstöð þróunar DRG aðferðafræðinnar á Norðurlöndunum.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra opnaði ráðstefnuna og bauð gesti velkomna. María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, var meðal aðalfyrirlesara ráðstefnunnar. Sjálfbærni heilbrigðiskerfa var rauði þráðurinn í hennar erindi og fjallað um með hvaða hætti bregðast megi við þeirri ógn við sjálfbærni sem felst í alþjóðlegum skorti á heilbrigðisstarfsfólki. Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er sett markmið um að fjármögnun allrar sjúkrahússþjónustu hér á landi verði þjónustutengd. Greiðslukerfin verði þannig nýtt til að stýra þeim fjármunum sem varið er til heilbrigðisþjónustu í samræmi við þjónustuþörf. Þjónustutengd fjármögnun snýst því um markviss kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu sem byggi á ítarlegri kostnaðar- og þarfagreiningu.

Víða um heim standa þjóðir í þeim sporum að þurfa að endurhugsa ferla og lausnir til að styrkja heilbrigðiskerfi sín gagnvart áskorunum framtíðarinnar, s.s. sjúkdómsfaröldrum, öldrun íbúa, langvarandi sjúkdómum, mönnunarvanda og auknum kostnaði sem fylgir. Þetta eru meðal viðfangsefna þeirra fjölmörgu sérfræðinga sem sátu ráðstefnuna og deildu reynslu sinni og þekkingu.

Fyrirlestrar og vinnustofur voru af ýmsum toga en áttu það sameiginlegt að snúast um flokkun sjúkrahúsþjónustu á einhvern máta. Sem dæmi má nefna notkun stafrænnar tækni í heilbrigðisþjónustu, greiningu heilbrigðisgagna og viðbrögð við Covid-19 og loftslagsbreytingum.

Ráðstefnan var vel heppnuð að öllu leyti og gagnleg þeim sem hana sóttu.

(Frétt uppfærð 19. okt. ´22)

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum