Hoppa yfir valmynd
27. október 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ráðherrafundur Evrópuráðsins um íþróttir

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, er staddur í Tyrklandi þar sem hann tekur þátt í 17. fundi ráðherra íþróttamála í Evrópu. Fundurinn er haldinn á vegum EPAS - Enlarged Partial Agreement on Sport í samstarfi við ráðuneyti íþrótta- og æskulýðsmála í Tyrklandi. Samhliða hefur Ásmundur fundað tvíhliða með íþróttamálaráðherrum um mögulegar fyrirmyndir og samstarf er varðar áherslur stjórnvalda og verkefni framundan, m.a. um stöðu afreksíþróttafólks og málefni barna.

Á fundi ráðherranna eru tvö megin umfjöllunarefni:

  1. Íþróttir fyrir alla: Samstarf um sterkara samfélag.
  2. Endurhugsun íþrótta: Vegurinn að heilbrigði og sjálfbærri framtíð.

Í ávarpi sínu lagði ráðherra áherslu á mikilvægi þess að unnið verði á grundvelli grunngilda Evrópuráðsins innan íþrótta.

„Íþróttir sem eru skipulagðar í anda lýðræðis, mannréttinda, jafnréttis og öryggis allra iðkenda þar sem öflugt og fjölbreytt íþróttastarf fyrir alla getur farið fram við góðar aðstæður er einkenni samfélags sem ákjósanlegt er að lifa í.“

Ásmundur Einar Daðason, mennta og barnamálaráðherra, ásamt Björn Berge aðstoðarframkvæmdastjóra Evrópuráðsins og Mehmet Muharrem Kasapoglu íþróttamálaráðherra Tyrklands
Ásmundur Einar Daðason, mennta og barnamálaráðherra, ásamt Björn Berge aðstoðarframkvæmdastjóra Evrópuráðsins og Mehmet Muharrem Kasapoglu íþróttamálaráðherra Tyrklands

Endurskoðaður Evrópusáttmáli um íþróttir var samþykktur af ráðherranefnd Evrópuráðsins á síðasta ári og tók efni ráðstefnunnar mið af því. Ráðherra gafst þar að auki tækifæri til þess að eiga bein samtöl við aðra kollega um íþróttamál. Meðal þess sem komið hefur til umræðu er hvernig staðið er að stuðningi við afreksíþróttafólk og hvernig íþróttir geta skipt máli hvað bætta heilsu og vellíðan varðar, auk aðlögunar nýrra íbúa að samfélögum. Í lok ráðstefnunnar átti ráðherra svo fund með aðstoðarframkvæmdastjóra Evrópuráðsins um formennsku Íslands í Evrópuráðinu. Rætt var um áherslur Íslands í málefnum barna og einnig hvernig Evrópuráðið getur vakið enn betur athygli á málefnum íþrótta.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum