Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 18. nóvember 2022

Heil og sæl.

Við heilsum ykkur héðan af Rauðarárstígnum í björtu og fallegu veðri og færum ykkur það helsta sem hefur átt sér stað í utanríkisþjónustunni í vikunni.

Við hefjum yfirferðina á fundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur með utanríkisráðherra Króatíu í gær. Þar voru árásarstríð Rússlands í Úkraínu, staða mála á Vestur-Balkanskaga og Evrópumál helstu umfjöllunarefni. Gordan Grlić-Radman utanríkisráðherra Króatíu var staddur hér á landi í tilefni af þrjátíu ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Króatíu en Ísland var fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Króatíu þann 19. desember 1991.

„Samstarf Íslands og Króatíu stendur traustum fótum á tvíhliða grundvelli og innan alþjóðastofnana. Fundurinn var einkar gagnlegur og samstaðan greinileg um mikilvægi þess að standa vörð um sameiginleg gildi á borð við lýðræði, réttarríkið og alþjóðakerfi sem byggir á alþjóðalögum,“ segir Þórdís Kolbrún.

Þá brást Þórdís Kolbrún einnig við eldflaugaskotunum í Póllandi í vikunni sem varð tveimur að bana.

Í samtali við mbl.is sagðist Gerard Pokruszynski, sendiherra Póllands á Íslandi, finna fyrir stuðningi Íslendinga.

„Martin Eyjólfsson [ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins] hringdi í mig í gærkvöldi og við ræddum stöðuna. Ég fann því fyrir stuðningi Íslendinga og í framhaldinu fór utanríkisráðherrann, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fram á að málið yrði rætt í utanríkisnefnd þingsins með þátttöku Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra vegna alvöru málsins,“ sagði Pokruszynski við mbl.is. 

Þá rifjum við einnig upp sameiginlega grein utanríkisráðherra með utanríkisráðherra Írlands, Simon Coveney, sem birtist í Morgunblaðinu um síðustu helgi. Greinin er einkar góð og fjallar m.a. um næstu skref í Evrópuráðinu, en Ísland tók við af Írlandi í síðustu viku.

Af vettvangi utanríkisráðuneytisins sögðum við einnig frá því í vikunni að Ísland hefði formlega verið tekið inn í samstarfshóp ríkja um fjármögnun aðlögunaraðgerða vegna afleiðinga loftslagbreytinga í þróunarríkjum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP27. 

Við greindum einnig frá því á föstudaginn sl. að Ísland og Þýskaland hefðu á óskað eftir að haldinn yrði aukafundur mannréttindráðs Sameinuðu þjóðanna til að fjalla um ástand mannréttindamála í Íran. Síðustu vikur hafa staðið yfir fjölmenn mótmæli í Íran sem hafa verið leidd af konum og stúlkum sem krefjast þess að njóta grundvallarmannréttinda. Fjöldi þeirra hefur verið handtekinn og settur í fangelsi og ítrekað berast fregnir af grófri valdbeitingu af ýmsu tagi. 

Síðastlinn sunnudag fór fram árleg athöfn til minningar þeirra sem fórust í heimsstyrjöldunum tveimur og seinni tíma stríðsátökum. Athöfnin er ávallt haldin sunnudaginn sem næstur er stríðslokadegi fyrri heimsstyrjaldar, 11. nóvember. Estrid Brekkan, prótokollstjóri utanríkisráðuneytisins og Jónas G. Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu, tóku þátt í athöfninni sem var skipulögð af sendiherra Bretlands og sótt af fulltrúum erlendra sendiráða í Reykjavík ásamt fleirum. 

En þá að starfi sendiskrifstofanna í vikunni.

Í Helsinki bauð Harald Aspelund sendiherra til móttöku í tilefni af nýsköpunarhátíðinni Slush. Aldrei hafa jafn mörg sprotafyrirtæki og fjárfestingasjóðir sent fulltrúa frá Íslandi á ráðstefnuna en rúmlega hundrað manns skipa sendinefndina.

Líkt og fjölmörg önnur sendiráð fagnaði sendiráð Íslands í Osló degi íslenskrar tungu á miðvikudag. Í Osló var boðið til hátíðlegrar bókmenntamóttöku í embættisbústaðnum þar í borg. Einnig var fjallað um viðburðinn í skemmtilegri grein á mbl.is.

Þar áttu svo sendiherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja hádegisverðarfund í boði sendiherra Íslands þar sem Ine Eriksen Søreide formaður utanríkis- og varnarmálanefndar Stórþingsins var gestur.

Starfsfólk sendiráðs okkar í Stokkhólmi tók svo þátt í ferðaráðstefnu þar í borg.

María Erla Marelsdóttir, sendiherra Ísland í Berlín, tók þátt í umræðu um samfélagslegar áskoranir á Norðurlöndunum ásamt sendiherrum Norðurlandanna í sameiginlegu húsnæði norrænu sendiráðanna og lagði hún þar áherslu á hækkun barna- og húsnæðisbóta á Íslandi.

Í Frakklandi sótti fulltrúi sendiráðsins auk aðalræðismanns Íslands í Normandí viðburð á norrænni menningarhátíð í Caen.

Í Brussel komu fulltrúar ráðgjafarnefndar jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á Íslandi og starfslið í heimsókn í sendiráðið á dögunum ásamt ráðuneytisstjóra innviðaráðuneytisins, skrifstofustjóra sveitarstjórnarmála og aðstoðarmanni innviðaráðherra.

Fastanefnd Íslands í Evrópuráðinu vakti athygli á sameiginlegri fréttatilkynningu utanríkisráðherra og Marija Pejčinović Burić framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, þar sem góðri starfsemi Barnahúss er flaggað sem fyrirmynd fyrir önnur ríki til þess að takast á við málefni barna sem grunur leikur á um að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi.

Sendiráð okkar í Washington tók saman nokkur orð um heimsókn forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessonar, í Cornell háskóla ásamt sendinefnd frá Íslandi.

Það eru ekki bara sendiráðin okkar sem halda degi íslenskrar tungu á lofti. Ræðismaður Íslands í Alaska vakti athygli á deginum í tísti.

Feðraorlof fastafulltrúans Jörundar Valtýssonar í New York hefur vakið athygli á Twitter.

Þar á bæ lauk þriðja nefnd þingsins störfum vegna 77. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.

Skrifað var um heimsókn norrænu sendiherranna í Kanada til Montréal í síðustu viku í blaðið La Presse.

Þá tók Hlynur Guðjónsson sendiherra Íslands í Kanada þátt í athöfn í Ottawa á minningardegi látinna hermanna (e. Remembrance Day).

Í Varsjá er undirbúningur stofnunar nýs sendiráðs á fullu! Starfsstöð hefur verið sett upp í sendiráðsíbúð við Jazgarzewska stræti til bráðabirgða þar til sendiráðsskrifstofa verður fullbúin í upphafi næsta árs. Þrír staðarráðnir starfsmenn og einn í hlutastarfi hafa verið ráðnir til starfa. Þeir hljóta nú þjálfun á búnaði utanríkisþjónustunnar undir handleiðslu Sigþórs Hilmissonar, forstöðumanns tölvudeildar.

Í Heimsljósi þessa vikuna var m.a. greint frá fjárhagslegum stuðningi sendiráðs Íslands og Noregs við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna í Malaví vegna matvælaskorts í landinu. „Nú fer í hönd „magra” tímabilið þar sem margir Malavar hafa lítið sem ekkert til hnífs og skeiðar,“ segir í frétt Heimsljóss.

Fleira var það ekki að sinni.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum