Hoppa yfir valmynd
7. desember 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Fræðsluefni um barneignarþjónustu fyrir verðandi foreldra af erlendum uppruna

Heilbrigðisráðherra hefur veitt Fæðingarheimili Reykjavíkur þriggja milljóna króna styrk til að útbúa fræðsluefni um barneignarferlið sem miðar að bættri þjónustu við verðandi foreldra af erlendum uppruna. Annars vegar verður unnið fræðsluefni ætlað foreldrunum og hins vegar efni sem nýtist heilbrigðisstarfsfólki. Efninu er ætlað að nýtast sem vegvísir fyrir verðandi foreldra um þjónustu heilbrigðiskerfisins í tengslum við meðgöngu, fæðingu og sængurlegu.

Styrkurinn er veittur á grundvelli verkefnisins Aðgengi fólks af erlendum uppruna að heilbrigðisþjónustu og aukið menningarlæsi heilbrigðisstarfsfólks og er fjármagnaður úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála.

Rannsóknir hafa sýnt að fæðingarútkoma kvenna af erlendum uppruna er lakari en hjá íslenskum konum. Vísbendingar eru um að aðgengi að barneignarþjónustu fyrir þennan hóp sé takmarkaðra en kvenna af íslenskum uppruna. Þar getur menningarmunur legið að baki, tungumálaörðugleikar og einnig skortur á aðgengilegum upplýsingum um réttindi og stuðning.

Samkvæmt samningi við Fæðingarheimilið verður fræðsluefnið unnið í samráði við kvennadeild Landspítala, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Ljósmæðrafélag Íslands, Fjölmenningarsetur og Samtök kvenna af erlendum uppruna (W.O.M.E.N.).

Gert er ráð fyrir að fræðsluefnið verið tilbúið til birtingar fyrir lok næsta árs og verði þá aðgengilegt sem víðast þar sem þess er þörf, t.d. á vefnum heilsuvera.is, á vef Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu og á ljosmodir.is.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum