Hoppa yfir valmynd
9. desember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin haldin í Hörpu um helgina: Stærsti viðburður sinnar tegundar á Íslandi

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin verða haldin í Hörpu á laugardag. Þetta er einn stærsti viðburður af þessari tegund sem haldinn hefur verið á Íslandi og fyrsti svokallaði A-lista viðburðurinn sem haldinn hefur verið hér á landi. Þau Ilmur Kristjánsdóttir og Hugleikur Dagsson verða kynnar hátíðarinnar. 

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin eru þekktustu og virtustu verðlaunin sem veitt eru fyrir evrópskar kvikmyndir og eru veitt af Evrópsku kvikmyndaakademíunni.

Þetta er 35. hátíðin og hafa átta íslenskar myndir og stuttmyndir áður fengið tilnefningu í sögu verðlaunanna. Íslenska kvikmyndin Leynilögga, í leikstjórn Hannesar Þórs Halldórssonar, er tilnefnd í flokki gamanmynda að þessu sinni.

„Þetta er mikill heiður fyrir Ísland að viðburðurinn sé haldinn hér. Mig langar líka að óska Hannesi Halldórssyni, leikurum og aðstandendum kvikmyndarinnar Leynilögga hjartanlega til hamingju með tilnefninguna,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Hér má sjá tilnefningar til verðlaunanna þetta árið:

Viðamikið samstarf

Stofnað var til verðlaunanna árið 1988 en megintilgangur þeirra er að efla og vekja athygli á evrópskri kvikmyndagerð. Um er að ræða viðamikið samstarfsverkefni menningar- og viðskiptaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar við Evrópsku kvikmyndaakademíuna (e. EFA) í Berlín en að því koma meðal annars Harpa og RÚV. Ráðgert er að hátt í 1.400 gestir verði viðstaddir verðlaunahátíðina sjálfa og að sýnt verði beint frá henni, hér heima og víða erlendis.

Ferðaþjónustan og atvinnulíf njóta góðs af

Hátíðin er haldin annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum Evrópu. Hana átti að halda árið 2020 á Íslandi en vegna heimsfaraldursins var ákveðið að hún yrði þess í stað árið 2022 hér á landi. Stuðningur við hátíðina er meðal annars í takt við Kvikmyndastefnu Íslands þar sem lögð er áhersla á miðlun og stuðning við viðburði sem þennan. 

Tímasetning hátíðarinnar hentar vel en desember er sá mánuður þar sem einna líklegast er að slíkir viðburðir hafi jákvæð áhrif á ferðaþjónustu og atvinnulíf auk þess sem margvísleg tækifæri gefast til þess að vekja athygli á íslenskri menningu. 1.800 gistinætur eru bókaðar í tengslum við viðburðinn.

Hátíðin og hliðarviðburðir henni tengdir hafa þegar laðað að sér fjölmarga erlenda gesti og er vonast til þess að hún stuðli að öflugri kynningu og markaðssetningu á Íslandi og Reykjavík sem áfangastað og tökustað fyrir kvikmyndir. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum