Hoppa yfir valmynd
21. desember 2022 Innviðaráðuneytið

Viðbragðsáætlun vegna ófærðar

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur skipað starfshóp til að semja drög að áætlun til að takast á við aðstæður eins og sköpuðust á Reykjanesbraut um helgina. Hópurinn á að skila niðurstöðu innan mánaðar. Hlutverk hópsins er að fara yfir það sem gerðist, greina atburðarásina og hvað hefði betur mátt fara.

Sigurður Ingi Jóhannsson: „Snjór á Íslandi er engin nýlunda og við eigum að geta séð til þess að fólk komist á milli staða þótt aðstæður séu krefjandi, án þess þó að öryggi vegfaranda sé stefnt í hættu. Margt lagðist á eitt sem leiddi til þess að umferð stöðvaðist á Reykjanesbraut um liðna helgi. Allir gerðu sitt besta en með betra skipulagi og skýra áætlun um hvernig beri að mæta svona aðstæðum, tel ég að hægt sé að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig með tilheyrandi tjóni og vandræðum.“

Starfshópurinn verður skipaður fulltrúum frá Vegagerðinni, Ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Fulltrúi frá innviðaráðuneytinu mun stýra vinnu hópsins. Hópnum er gert að hafa samráð við hagaðila er málið varðar. Þau atriði sem hópnum ber að hafa í huga í sinni vinnu eru meðal annars:

  • Skipulag á snjómokstri á Reykjanesbraut
  • Ákvarðanir um hvenær skuli loka og opna fyrir umferð
  • Hver ber ábyrgð á því að fjarlægja bíla sem sitja fastir
  • Upplýsingagjöf til almennings og hagaðila
  • Yfirfara hlutverk og verkaskiptingu aðila
  • Meta þörf á breytingum á lögum eða reglum til að skýra hlutverk hvers og eins

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum