Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Stuðningur við rekstur LungA á Seyðisfirði

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Björt Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri LungA, undirrita samning á Seyðisfirði - mynd

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði í gær samning við LungA lýðskólann á Seyðisfirði.

Markmið samnings er að

  • styðja við rekstur og stuðla að starfrækslu LungA lýðskólans á Seyðisfirði,
  • fjármagna nýja námsbraut, LAND, og nýtt fjögurra vikna námskeið í janúar 2023 sem bæði leggja áherslu á umhverfið og persónulega sjálfbærni í formi hráefnisnýtingar og fæðuöflunar úr nærumhverfinu.

„Með bættum samgöngum, flutningum og geymsluaðferðum höfum við fjarlægst okkar nærumhverfi. Með nýrri námsbraut og námskeiði LungA er horft til þess sem stendur okkur nær, að nýta hráefni úr nærumhverfinu, landi og sjó, til matar og verka,“ segir Ásmundur Einar. „Framtakið felur einnig í sér meiri útiveru og fellur vel að áherslum stjórnvalda um fjölbreyttara námsval.“

LungA er fyrsti lýðskólinn á Íslandi, stofnaður árið 2013. Lýðskólum er ætlað að veita nýjan kost í námi sem eykur fjölbreytni og mætir áhuga og hæfileikum nemenda sem vilja átta sig betur á möguleikum og stefnu í lífi og starfi. Þeir vinna með lykilhæfni skólastarfs, líkt og kveðið er á um í aðalnámskrá framhaldsskóla, svo sem námshæfni, skapandi hugsun, sjálfbærni og lýðræðisleg vinnubrögð á annan hátt en hið formlega skólakerfi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum