Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Ísland styður við vatns- og hreinlætisverkefni í Síerra Leóne

Yfirmaður UNICEF í Síerra Leóne, Dr. Suleimen Braimoh, sjávarútvegsráðherra Síerra Leóne, Emma Kowa Jalloh, og Davíð Bjarnason, fulltrúi utanríkisráðuneytisins, hleyptu verkefningu af stokkunum í dag. - myndUNICEF

Nýju samstarfsverkefni Íslands, stjórnvalda í Síerra Leóne og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) um uppbyggingu vatns- og hreinlætisaðstöðu í sjávarbyggðum landsins var formlega hleypt af stokkunum við hátíðlega athöfn í fiskiþorpinu Goderich í dag. Verkefnið er til fjögurra ára og mun ná til sextán afskekktra fiskiþorpa í sex héruðum þar sem aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu ásamt annarri grunnþjónustu er afar ábótavant

„Við erum ánægð með áframhaldandi samstarf Íslands við stjórnvöld í Síerra Leóne og UNICEF um uppbyggingu vatns- og hreinlætisaðstöðu í sjávarbyggðum. Nýja verkefnið byggir á lærdómi úr fyrra samstarfsverkefni okkar og beitir heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta lífskjör fiskimannasamfélaga, en áhersla hefur verið lögð á stuðning til þeirra í þróunarsamvinnu Íslands í landinu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra um þennan áfanga.

Sjávarútvegsráðherra Síerra Leóne og aðrir fulltrúar stjórnvalda, fulltrúi frá utanríkisráðuneytinu og yfirmaður UNICEF í landinu ásamt haghöfum voru viðstaddir athöfnina í morgun. Stefnt er að opnun sendiráðs Íslands í Síerra Leóne á árinu og verður samstarfsverkefnið sem nú er formlega hafið eitt af lykilverkefnum í samstarfinu á komandi árum.

53 þúsund manns njóti góðs af verkefninu

Aðgangur að fullnægjandi vatns- og hreinlætisaðstöðu í Síerra Leóne er almennt afar takmarkaður og ástandið er jafnan verra við sjávarsíðuna. Vatnsbornir sjúkdómar á borð við niðurgangspestir, malaríu og vannæringu eru þar algengir sem hefur neikvæð áhrif á heilsu og velferð íbúanna. Gert er ráð fyrir að í heildina munu rúmlega 53 þúsund manns í þessum 16 fiskimannasamfélögum njóta góðs af verkefninu, þar á meðal börn en lögð er sérstök áhersla á að bæta aðstæður barna og kvenna í samfélögunum.

Greint var frá verkefninu í Heimsljósi, upplýsingaveitu um þróunar- og mannúðarmál, á dögunum. Þar kemur meðal annars fram að  vatnsveitur og hreinlætisaðstaða verði byggð upp við heilsugæslustöðvar, skóla og löndunarstaði þar sem jafnan er margt um manninn. Jafnframt verður stutt við byggingu og starfsemi leikskóla og fræðslu og aðgengi að aðstöðu fyrir tíðaheilbrigði stúlkna. Leitast verður við að samþætta umhverfis- og loftslagsmál í alla verkþætti og stutt við viðleitni til að draga úr plastmengun í þorpunum.

Utanríkisráðuneytið hefur átt í farsælu samstarfi við stjórnvöld í Síerra Leóne og UNICEF um uppbyggingu vatns- og hreinlætisaðstöðu í fiskimannasamfélögum í landinu síðan 2019 og byggist nýja verkefnið á þeim grunni.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

6. Hreint vatn og hreint
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum