Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Framlög til Listar án landamæra hækka verulega

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Margrét Pétursdóttir, formaður stjórnar Listar án landamæra, undirrituðu samninginn í Hinu húsinu að forsvarsmönnum hátíðarinnar viðstöddum. - myndSigurður Valur

Listahátíðin List án landamæra fagnar 20 ára afmæli hátíðarinnar í ár. Af því tilefni undirritaði Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, samning við hátíðina upp á 6 milljóna króna árlegt framlag frá ráðuneytinu til næstu þriggja ára.  Ríkisstjórn Íslands leggur auk þess fram tvær milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu til hátíðarinnar á afmælisárinu.

List án landamæra hefur notið styrkja frá ráðuneytinu frá upphafi og hefur hátíðin vaxið og dafnað hin síðustu ár og orðið umfangsmeiri og fjölbreyttari með hverju árinu. Því var ákveðið að hækka verulega framlög til hátíðarinnar í ár, sérstaklega í ljósi þess að hátíðin á stórafmæli og verður 20 ára.  

„Hátíðin er bráðnauðsynleg fyrir listafólk með fötlun, sem skila gríðarlegum verðmætum inn í samfélagið. Hún er ekki síður mikilvægur vettvangur í menningarsamfélagi Íslands og eykur bæði aðgengi fatlaðs listafólks að listum og menningu og aðgengi almennings að list fatlaðra listamanna sem er mikill menningarauður,” segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. 

Hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 2003. Hún hefur verið starfrækt um allt land og hefur það markmið að vinna að menningarlegu jafnrétti fyrir listafólk með fötlun. Hún vinnur þvert á listform og leggur áherslu á jákvæða birtingarmynd fólks með fötlun og hefur markvisst unnið að inngildingu í listum og menningu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum