Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra mælir fyrir frumvarpi til nýrra sóttvarnalaga

Veirufræðideild Landsdpítala - myndMynd: Landspítali/Þorkell

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi til nýrra sóttvarnalaga. Frumvarpið er endurflutt, að mestu óbreytt frá fyrra þingi.

Frumvarpið er samið af starfshópi sem heilbrigðisráðherra skipaði í júní 2021 með fulltrúum heilbrigðisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, embættis landlæknis, sóttvarnaráðs, Landspítala, sóttvarnalækni og ríkislögreglustjóra.

Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu varða einkum stjórnsýslu sóttvarna og opinberar sóttvarnaráðstafanir í ljósi fenginnar reynslu af heimsfaraldri Covid-19. Komið verður á fót farsóttanefnd sem tekur að nokkru leyti við verkefnum sóttvarnalæknis samkvæmt gildandi lögum, þ.e. að koma með tillögur til ráðherra um beitingu veigamestu opinberu sóttvarnaráðstafanna. Þá verður tekin upp stigskipting smitsjúkdóma að fyrirmynd nýrra farsóttarlaga í Danmörku, sem hefur m.a. í för með sér að ekki má beita viðamestu sóttvarnaráðstöfununum nema smitsjúkdómur hafi, að undangenginni tillögu farsóttanefndar, verið skilgreindur samfélagslega hættulegur.  

Sóttvarnanefnd hafi yfirgripsmikla þekkingu á smitsjúkdómum og faraldsfræði

Sú breyting hefur verið gerð á frumvarpinu við endurframlagningu þess að fulltrúum í farsóttanefnd er fækkað úr níu í sjö. Ákveðið var  að einblína á að í farsóttanefnd væri fyrir hendi yfirgripsmikil þekking á smitsjúkdómum og faraldsfræði þeirra. Með því móti verður lögð aðaláherslan á að vinna nefndarinnar og tillögur byggist á slíkri þekkingu en að sama skapi þurfi stjórnvöld sem taka við tillögum farsóttanefndar, s.s. ráðherra heilbrigðismála og eftir atvikum ríkisstjórn, að horfa sérstaklega til annarra sjónarmiða sem hafa þýðingu við ákvörðun um opinberar sóttvarnaráðstafanir, þ.m.t. mannréttindi og réttindi barna sem kunna að vera skert með slíkum ráðstöfunum og efnahagslegra afleiðinga en ekki síður afleiddra áhrifa á heilbrigði og lýðheilsu. 

Helstu nýmæli frá gildandi lögum:

  • Lagt er til markmiðsákvæði, sambærilegt og er í nýlegum dönskum lögum, komi inn í sóttvarnalög.
  • Lagt er til að sett verði í lögin skýrt gildissviðsákvæði sem og sérstakt ákvæði um þá sjúkdóma sem lögin taka til. Í því ákvæði er lögð til tiltekin stigskipting sjúkdóma í samræmi við þær heimildir sem koma til greina þegar glímt er við hvern og einn sjúkdóm.
  • Lagðar eru til nýjar orðskýringar, svo sem skýring á samfélagslega hættulegum sjúkdómi.
  • Lagðar eru til breytingar á stjórnsýslu sóttvarna. Þannig er lagt til að sóttvarnalæknir verði skipaður af ráðherra, líkt og landlæknir og aðrir forstöðumenn stofnana, samhliða því að ábyrgð hans á framkvæmd sóttvarna heyri beint undir yfirstjórn ráðherra en ekki landlækni. Enn fremur að nýtt fjölskipað stjórnvald, farsóttanefnd, verði sett á laggirnar sem skilar inn tillögum til ráðherra um opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna samfélagslega hættulegra sjúkdóma.
  • Samhliða stofnun farsóttanefndar verður sóttvarnaráð í núverandi mynd lagt niður í nýjum heildarlögum um sóttvarnir. Þó er lagt til í frumvarpinu að sóttvarnalæknir hafi heimild til að kveða sér til ráðgjafar sérfræðinga vegna þeirra verkefna sem falla undir hlutverk sóttvarnalæknis.
  • Lagt er til að kaflinn um opinberar sóttvarnaráðstafanir og einstaka ákvæði hans verði brotin upp og framsetning einfölduð frá gildandi sóttvarnalögum. Jafnframt eru settar tilteknar skorður við tímalengd opinberra sóttvarnaráðstafana.
  • Lagt er til að aðkoma og eftirlitshlutverk Alþingis að opinberum sóttvarnaráðstöfunum verði styrkt.
  • Lagt er að viðurlagaákvæði laganna verði uppfært í samræmi við löggjafarþróun síðari ára.

Frumvarpið og ferill málsins á Alþingi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum