Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2023 Dómsmálaráðuneytið

Ofbeldisgátt 112 fjármögnuð til næstu ára

Haukur Guðmundsson, ráðuneytisstjóri og Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjór Neyðarlínunnar - myndDMR

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra hefur gert samning við Neyðarlínuna um að reka áfram og þróa frekar ofbeldisgátt 112 þannig að 112.is verði sá staður þar sem finna má upplýsingar og úrræði varðandi ofbeldi.

Vefsvæði Neyðarlínunnar, 112.is  er orðin vefgátt varðandi heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi, ofbeldi gegn börnum og annars konar ofbeldi þar sem þolendur, aðstandendur og gerendur geta leitað upplýsinga og fundið úrræði til að stöðva ofbeldið. Einnig eru þar upplýsingar um réttarvörslukerfið, hvernig það virkar og hver framvinda máls er innan kerfisins þannig að þau sem verða fyrir kynferðisofbeldi hiki ekki við að leita réttar síns og tilkynni brotin sem fyrst til að lögreglan geti aflað nauðsynlegra sönnunargagna.

Neyðarlínan hefur rekið ofbeldisgáttina í samstarfi við þá opinberu aðila, félagasamtök og einkaaðila sem veita þjónustu eða úrræði vegna ofbeldisbrota. Upplýsingarnar eru á íslensku, ensku og pólsku.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra:

„112 er númerið sem fólk leitar til í neyð. Þar skiptir ekki máli hvers kyns neyðin er – númerið er 112 og vefsvæðið er 112.is. Árangurinn af Ofbeldisgáttinni er góður og það er vert að halda því áfram sem vel er gert. Það er mér því ánægjuefni að skrifa undir samning um áframhald þessa verkefnis.“

Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar:

„Það hefur komið í ljós að brýn þörf er fyrir upplýsingavef eins og ofbeldisgáttina. Við sjáum það á heimsóknum á vefsvæðið að fólk gefur sér tíma til að lesa efnið og við heyrum það frá samstarfsaðilum að ásókn í úrræðin sem í boði eru hefur margfaldast frá því vefurinn og vitundarvakning tengd honum fór í loftið. Á síðasta ári var slegið met í fjölda tilkynninga um heimilisofbeldi á Íslandi. Við eigum eftir að sjá árangur þessa mikilvæga átaks í færri ofbeldisverkum.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum