Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Nýr vefur opnar í viku upplýsinga- og miðlalæsis

Sérstök fræðsluvika tileinkuð upplýsinga- og miðlalæsi er haldin þessa vikuna, 13.-17. febrúar. Markmiðið er að gera vikuna að árlegum viðburði þar sem áhersla verður lögð á vitundarvakningu á mikilvægi upplýsinga- og miðlalæsis ásamt því að bjóða upp á nýtt fræðsluefni með mismunandi áherslum milli ára. 

Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi (TUMI) stendur að vikunni og í tilefni hennar var opnaður sérstakur vefur um miðlalæsi midlalaesi.is í gær.

Á vefnum má meðal annars finna:

  • Fræðslumyndbönd og stuðningsefni fyrir kennara til þess að vinna verkefni og eiga samtal við nemendur um miðlalæsi.
  • Hugtakalista með gagnlegum skýringum á ýmsum orðum úr netheimum eins og t.d. spjallmenni, upplýsingaóreiða, algóritmi og djúpvefur.
  • Skráningu á málþing um miðlalæsi í Grósku 16. febrúar.
  • Gagnlega hlekki á ítarefni.
  • Upplýsingar um verkefnið og tengslanetið.

Opið fræðsluefni

Sex stutt fræðslumyndbönd voru gefin út í tilefni vikunnar og eru aðgengileg á nýja vefnum. Þau fjalla öll um mismunandi hliðar miðlalæsis og fylgja hverju myndbandi umræðupunktar og kennsluleiðbeiningar til þess að aðstoða kennara við að eiga samtal við nemendur um ábyrga síma- og netnotkun.

Myndböndin sex fjalla um:

  • Samtal um samfélagsmiðla
  • Samfélagsmiðla og aldursmerkingar
  • Fréttir og falsfréttir
  • Hatur og áreiti á netinu
  • Áhorf á klám á netinu
  • Líðan og samfélagsmiðla
Fræðsluefnið byggir á niðurstöðum víðtækrar rannsóknar Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands á börnum og netmiðlum.

Málþing um upplýsinga- og miðlalæsi

Opið málþing um upplýsinga- og miðlalæsi verður svo haldið í Grósku á fimmtudaginn 16. febrúar kl. 09:00-12:00.

Takmarkað sætaframboð er í boði í salnum og geta þeir sem vilja skráð sig á málþingið hér. Fyrir þá sem komast ekki verður málþingið einnig í boði í streymi.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnar málþingið og við tekur svo aðalfyrirlesari þess, Stephanie Comey, sérfræðingur á sviði miðlalæsis og aðstoðarforstjóri írsku fjölmiðlastofnunarinnar (BAI). Fyrirtæki á borð við Meta og Google eru með evrópskar höfuðstöðvar sínar í Írlandi og falla því undir eftirlit írsku fjölmiðlastofnunarinnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum