Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2023 Forsætisráðuneytið

Starfshópur metur stöðu embættismanna og starfsskilyrði starfsmanna ríkisins

Á fundi ríkisstjórnarinnar þann 31. janúar sl. var ákveðið að koma á fót starfshópi sem leggi mat á stöðu embættismannakerfisins á Íslandi og starfsskilyrði starfsmanna ríkisins með hliðsjón af stöðu og þróun í nágrannalöndum.

Hópnum er falið að greina þróun embættismannakerfisins og starfsskilyrði ríkisstarfsmanna hér á landi í samanburði við nágrannalöndin, rýna þau lagaákvæði og aðrar reglur sem gilda um starfsskilyrði starfsmanna ríkisins og meta hvort skýra þurfi þau eða betrumbæta. Hópnum er einnig falið að greina sérstaklega og leggja mat á það fyrirkomulag sem nú tíðkast varðandi ákvörðun um það hverjir teljist til embættismanna, hver skipunartími þeirra er, hvernig skipan, flutningi og frávikningu þeirra er háttað og eftir atvikum annað fyrirkomulag sem um þá gildir sérstaklega.  Þá er hópnum falið að leggja mat á samspil hlutverka embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins og hinnar pólitísku stoðar stjórnkerfisins og skoða þróun þessa í samanburði við nágrannalöndin.

Hópinn skipa Bryndís Hlöðversdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í innviðaráðuneytinu, og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, prófessor í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Samráð verður haft við forystu stéttarfélaga á opinberum vinnumarkaði við afmörkun og vinnslu úttektarinnar og mun Bo Smith fyrrum ráðuneytisstjóri í danska stjórnarráðinu vera hópnum til ráðgjafar, en hann hefur stýrt sambærilegri vinnu í Danmörku. Varðandi efnistök og yfirferð tillagna hópsins verður í upphafi, um miðbik og við lok vinnunnar, kallaður til álitsgjafar hópur fólks með reynslu úr stjórnmálum og stjórnsýslu.

Hópurinn mun skila áfangaskýrslu sinni til ráðherra fyrir 1. september 2023 en lokaskýrslu og tillögum fyrir 1. janúar 2024.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum