Hoppa yfir valmynd
7. mars 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Lilja hitti Hildi Guðnadóttur í Berlín

Clemens Trautmann forseti Deutsche Grammophon, María Erla Marelsdóttir sendiherra Íslands í Þýskalandi, Hildur Guðnadóttir tónskáld, Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Sigrún Brynja Einarsdóttir skrifstofustjóri á skrifstofu menningar og fjölmiðla hjá ráðuneytinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hitti tónskáldið og Óskarsverðlaunahafann Hildi Guðnadóttur í Berlín í gærkvöldi.

Hildur er búsett í Berlín og útgáfufyrirtækið Deutsche Grammophon gefur út tónlist hennar. Fyrirtækið er eitt stærsta og virtasta útgáfufyrirtæki heims. Með ráðherra og Hildi voru Clemens Trautmann forseti Deutsche Grammophon og María Erla Marelsdóttir sendiherra Íslands í Þýskalandi.

Hildur skaust fyrst upp á stjörnuhimininn fyrir tónlistina í sjónvarpsþáttunum Chernobyl og svo skrifaði hún sig í sögubækurnar þegar hún vann Óskarsverðlaun í febrúar 2020 fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker.

„Þegar Hildur vann Óskarsverðlaunin fyrst Íslendinga skrifaði hún mikilvægan hluta af íslenskri menningarsögu. Hildur hefur náð glæsilegum árangri á ferlinum og er mikilvæg fyrirmynd fyrir alla sem starfa í tónlist. Hún er áminning um að ef við leggjum okkur fram þá geta draumarnir ræst,“ segir ráðherra.

Hildur var þriðja konan í heiminum til að vinna Óskarsverðlaun fyrir kvikmyndatónlist. Tónskáldið hefur í heildina unnið yfir 40 virt verðlaun fyrir tónlist sína, þar á meðal Emmy, BAFTA, Golden Globe, Grammy og Critic‘s Choice verðlaun. Hér á landi hefur hún bæði unnið Edduna og hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum