Hoppa yfir valmynd
22. mars 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Raunvísindastofnun felld undir Háskóla Íslands

Raunvísindastofnun felld undir Háskóla Íslands - myndHáskóli Íslands

Raunvísindastofnun Háskólans hefur nú verið felld undir Háskóla Íslands (HÍ). Að sögn Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur stofnunin um langt árabil verið rekin á á grunni sjálfstæðs fjárlagaliðs en nú sé búið að fella hann undir HÍ. „Með þessari breytingu er verið að einfalda ríkisrekstur og draga úr óhagræði í rekstri. Ég hef lagt áherslu á að stofnanir á háskólastigi starfi betur saman og helst að einhverjar sameinist. Þetta er mikilvægt skref á þeirri vegferð.“

Með þessari breytingu er komið til móts við ábendingar Ríkisendurskoðunar, sem hefur ítrekað og allt frá árinu 2011, bent á að óhagræðið sem felist í því að stofnanir sem heyri undir HÍ séu reknar sem sjálfstæðar einingar á sérstökum fjárlagaliðum. Fyrirkomulagið hafi jafnframt ýtt undir óljósa ábyrgðar- og verkaskiptingu milli slíkra stofnana og Háskóla Íslands.

Raunvísindastofnun HÍ var sett á laggir árið 1966 og undanfarin misseri hafa um 130-140 stöðugildi verið á vegum stofnunarinnar. Frá upphafi hefur hún sinnt afar mikilvægum rannsóknum á sviði raunvísinda innan HÍ, þ. á m. á sviði stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði, lífefnafræði, jarðfræði og jarðeðlisfræði.

Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands segir að með nýju fyrirkomulagi sé unnt að efla enn betur starfsemi Raunvísindastofnunar. „Raunvísindastofnun Háskólans er HÍ gríðarlega mikilvæg rannsóknastofnun sem á í miklu samstarfi bæði alþjóðlega og innlands auk þess að vera flaggskip Háskólans í raun- og jarðvísindum. Sameiginlegur fjárlagaliður, með einfaldari yfirbyggingu, styrkir stofnunina og HÍ í enn frekari sókn."

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum