Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2023 Innviðaráðuneytið

Áform um vegvísi að vistvænum samgöngum kynnt í samráðsgátt

Áform um vegvísi að vistvænum samgöngum til ársins 2030 hafa verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda. Hægt er að senda inn umsagnir eða ábendingar til og með 11. apríl nk.

Ríkisstjórnin hefur sett loftslagsmál í forgang og eru markmið stjórnvalda metnaðarfull. Draga á úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% eða meira til ársins 2030 miðað við losun árið 2005. Þá skulu efldar aðgerðir í kolefnisbindingu og landnotkun sem miða að því að ná markmiði um kolefnishlutleysi árið 2040. Árið 2040 skal fullum orkuskiptum náð og þannig skal Ísland verða óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. 

Skilgreindar tímasettar aðgerðir

Vegvísir að vistvænum samgöngum á Íslandi til ársins 2030 mun innihalda skilgreindar tímasettar aðgerðir sem miða að því að markmiðum um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda verði náð miðað við árið 2005. 

Á árunum 2005-2020 var um þriðjungur af losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands vegna samgangna. Framreikningar Umhverfisstofnunar á losun gróðurhúsalofttegunda sýna að frekari aðgerða er þörf til að uppfylla markmið um samdrátt í losun. Vegvísi um vistvænar samgöngur til 2030 er því ætlað að vinna að frekari aðgerðum í samdrætti í losun frá samgöngum til að vinna að því markmiði að Ísland standi við skuldbindingar sínar og uppfylli sjálfstæð markmið.

Viðfangsefni vegvísisins verður orkuskipti í samgöngum, þ.m.t. samgöngutæki, eldsneyti og uppbygging innviða sem og leiðir til að draga úr kolefnisspori vegna uppbyggingar og reksturs samgöngumannvirkja. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni verða höfð að leiðarljósi.

Stýrihópur hefur verið skipaður um verkefnið en í honum verða fulltrúar innviðaráðuneytisins, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, Isavia, Orkustofnun, Samgöngustofu og Vegagerðinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum