Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2023 Utanríkisráðuneytið

Sögulegum utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins lokið

Fáni Finnlands blaktir nú við hún fyrir framan höfustöðvar Atlantshafsbandalagsins í Brussel - myndAtlantshafsbandalagið

Sögulegum fundi Atlantshafsbandalagsins, þar sem Finnland tók í fyrsta sinn þátt sem bandalagsríki, lauk í Brussel í dag. Stuðningur bandalagsríkja við Úkraínu vegna innrásar Rússlands var sem fyrr í brennidepli sem og undirbúningur fyrir leiðtogafund í Vilníus í júlí.

„Það var áhrifarík stund þegar finnski fáninn var dreginn að húni við höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins í gær. Með aðildinni er Finnland öruggara og bandalagið sterkara. Ég undirstrikaði mikilvægi þess að Svíþjóð taki þátt í leiðtogafundinum í Vilníus sem fullgilt bandalagsríki. Þvert á það sem Rússlandsforseti ætlaði sér með stríðsrekstrinum hefur bandalagið aldrei verið öflugra og bandalagsríkin eru tvíefld í stuðningi sínum við Úkraínu,” segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Á fyrri degi fundarins var hagnýtur og pólitískur stuðningur við Úkraínu ítrekaður á vettvangi NATO-Úkraínunefndarinnar þar sem utanríkisráðherra Úkraínu, Dmytro Kuleba, tók þátt. Seinni fundardagurinn var helgaður undirbúningi fyrir leiðtogafund bandalagsins í Vilníus. Auk yfirstandandi styrkingar á fælingar- og varnarstefnu bandalagsins, verður áframhaldandi aukning framlaga til varnarmála m.a. á dagskrá leiðtogafundarins.

Rætt var um aukinn og langvarandi stuðning við Úkraínu, meðal annars með framlögum í stuðningssjóð Atlantshafsbandalagsins fyrir Úkraínu og mikilvægi þess að styðja við uppbyggingu stofnana á sviði varnarmála. Þá voru aðrar öryggisáskoranir til umræðu, svo sem netógnir, óstöðugleiki við suðurjaðar bandalagsins og hvernig efla megi viðnámsþol og öryggi innviða í bandalagsríkjum.

Þá var fundað með utanríkisráðherrum samstarfsríkja bandalagsins á Indó-Kyrrahafssvæðinu, Ástralíu, Japan, Nýja-Sjálandi og Suður-Kóreu, þar sem stríð Rússa gegn Úkraínu og vaxandi öryggisáskoranir vegna Kína voru til umfjöllunar. Leiðtogar ríkjanna munu taka þátt á fundinum í Vilníus í sumar.

  • Frá fundi Norður-Atlantshafsráðsins - mynd
  • Frá athöfn í tilefni af inngöngu Finnlands í Atlantshafsbandalagið - mynd
  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra á tali við Önnulenu Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, Hadju Lahbib, utanríkisráðherra Belgíu, og Jens Stoltenberg, frkvstj. Atlantshafsbandalagsins - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum