Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2023 Utanríkisráðuneytið

Ísland styrkir sjóði Alþjóðabankans um enduruppbyggingu í Úkraínu

Ísland hefur ákveðið að leggja Úkraínu til 700 milljónir króna í gegnum sjóði Alþjóðabankans og var greint frá þeirri ákvörðun á fundi um málefni Úkraínu sem haldinn var í tengslum við vorfundi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington D.C. á miðvikudag.

„Framlagið er hluti af 1,5 milljörðum króna í mannúðar- og efnahagsaðstoð við Úkraínu sem gert er ráð fyrir á fjárlögum ársins 2023. Við leggjum áherslu á að framlög Íslands fari þangað sem þörfin er mest og á forsendum Úkraínumanna. Sjóðir Alþjóðabankans munu meðal annars styðja við enduruppbyggingu samfélagslegra innviða í Úkraínu, þar á meða innviði orkukerfis, samgöngukerfis og heilbrigðiskerfis,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Volodomyr Zelensky forseti Úkraínu ávarpaði fundinn í gegnum fjarfundabúnað í upphafi og ítrekaði mikilvægi þess að alþjóðasamfélagið styddi við Úkraínu. Samkvæmt nýlegu mati Alþjóðabankans nemur kostnaður við enduruppbyggingu samfélags og innviða um 411 milljarða dollara þegar rúmt er liðið frá innrás Rússlands í Úkraínu.

Alls verður 500 milljónum varið af hálfu Íslands í sjóðinn URTF sem styður við enduruppbyggingu innviða, meðal annars í orkumálum og heilbrigðiskerfi og 200 milljónum í SPUR sem er nýr sjóður sem hýstur er af Alþjóðaframfarastofnuninni (IDA) og mun styðja við endurreisn Úkraínu. SPUR mun einnig styðja að hluta við Moldóvu sem glímir við mikinn efnahagsvanda vegna flóttamannastraums frá Úkraínu.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum