Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2023 Forsætisráðuneytið

Björk Sigurgísladóttir skipuð varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits

Björk Sigurgísladóttir  - mynd

Forsætisráðherra hefur á grundvelli niðurstöðu lögbundinnar hæfnisnefndar og að fenginni tilnefningu fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands, skipað Björk Sigurgísladóttur, framkvæmdastjóra, í embætti varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits til fimm ára frá og með 1. maí nk. Embættið var auglýst laust til umsóknar 7. febrúar sl. og bárust sex umsóknir. Einn umsækjandi dró umsókn sína til baka.

Björk hefur sl. 15 ár starfað við fjármálaeftirlit, fyrst hjá Fjármálaeftirlitinu en síðan hjá Seðlabanka Íslands. Björk lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1998 og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 2000. Hún er með meistaragráðu í alþjóðalögum og samanburðarlögfræði (LLM) frá University of Iowa frá árinu 2004 og meistaragráðu í viðskiptafræði (MBA) frá University of Northern Iowa frá árinu 2008. Björk hóf störf hjá Neytendasamtökunum að loknu laganámi og starfaði þar á árunum 1998-2001. Hún hóf störf sem lögfræðingur á lánasviði Fjármálaeftirlitsins árið 2008 og tók við starfi forstöðumanns lagalegs eftirlits á eftirlitssviði stofnunarinnar árið 2012. Árið 2018 tók hún við starfi framkvæmdastjóra lagalegs eftirlits og vettvangsathugana hjá Fjármálaeftirlitinu en fluttist til Seðlabankans við sameiningu bankans og Fjármálaeftirlitsins árið 2020, þar sem hún gegnir nú starfi framkvæmdastjóra háttsemiseftirlits.

Björk hefur setið í fjölmörgum nefndum á sviði eftirlitsstarfa á fjármálamarkaði, þ.m.t. starfshópi fjármála- og efnahagsráðherra sem hafði það hlutverk að draga úr áhættu í fjármálakerfinu og auka viðnámsþrótt gegn fjármálaáföllum, starfshópi um kosti og galla við aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi og starfshópi á vegum Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsins (ESMA) sem hafði það hlutverk að samhæfa þær kröfur sem aðildarríki Evrópusambandsins gera til breskra verðbréfafyrirtækja sem sækja um starfsleyfi í öðrum ríkjum í tengslum við Brexit. Þá hefur hún setið í ýmsum vinnuhópum og nefndum innan Seðlabanka Íslands og tekið virkan þátt í vinnu er snýr að bættu verklagi innan stofnunarinnar.

Tilnefning fjármála- og efnahagsráðherra ásamt rökstuðningi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum