Hoppa yfir valmynd
3. maí 2023 Utanríkisráðuneytið

Sameiginlegt lið Íslands og Svíþjóðar sigurvegari netvarnaæfingar Atlantshafsbandalagsins

Íslensku þátttakendurnir á Skjaldborgaræfingunni - myndUtanríkisráðuneytið

Sameiginlegt lið Íslands og Svíþjóðar bar sigur úr býtum á netvarnaræfingunni Skjaldborg (Locked Shields) sem fram fór á dögunum. Æfingin var skipulögð og haldin af netöryggissetri Atlantshafsbandalagsins í Tallinn í Eistlandi og er þetta í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt. 

Lið Íslands skipaði starfsfólk frá netöryggissveit fjarskiptastofu (CERT-IS), Landhelgisgæslu Íslands, embætti ríkislögreglustjóra, Seðlabanka Íslands, Reiknistofu bankanna og utanríkisráðuneytinu.

Skjaldborg er ein stærsta netvarnaræfing í heimi og taka rúmlega 2.400 sérfræðingar frá 38 löndum þátt. Á æfingunni, sem sett er upp sem keppni, freista liðin þess að hnekkja hörðum net- og tölvuárásum óvinveittra aðila og vörðust liðin um 8.000 netárásum á meðan á æfingunni stóð.

Þátttaka í æfingunni er mikilvægur liður í að styrkja netvarnir á Íslandi og er hluti af netaðgerðaáætlun stjórnvalda sem var samþykkt á síðasta ári samhliða nýrri netöryggisstefnu fyrir Ísland.

„Öflugar netvarnir eru lykilatriði í að efla viðnámsþol og tryggja öryggi samfélagsins. Þátttaka íslenskra sérfræðinga í æfingu sem þessari eykur innlenda þekkingu og styrkir tengslin við mikilvægar stofnanir og netvarnarsérfræðinga í okkar vina- og bandalagsríkjum. Árangur íslensku þátttakendanna er mikið gleðiefni, á þessu sviði eigum við ekki að standa neinum að baki.“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Þess má geta að Ísland verður formlegur aðili að netöryggissetri Atlantshafsbandalagsins þann 16. maí næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum