Hoppa yfir valmynd
2. júní 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Fyrstu máltækniáætluninni lokið og frekari sókn í farvatninu

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, ásamt Sam Altman, stofnanda og framkvæmdastjóra OpenAI eftir fund í San Francisco í maí 2022.  - mynd
Verkáætlunin Máltækni fyrir íslensku 2018-2022 hefur nú klárast menningar- og viðskiptaráðherra kynnti árangur verkefnisins fyrir ríkisstjórn fyrr í dag, sem og næstu skref í máltækni.

„Við höfum náð eftirtektarverðum árangri í að gera íslenskuna gildandi í hinum stafræna heimi en afraksturinn af þessari vinnu hefur verið vonum framar,“ segir menningar- og viðskiptaráðherra.

Markmiðið með fyrstu máltækniáætluninni var að tryggja að hægt sé að nota íslensku sem samskiptamál í tækniheiminum og var megináhersla lögð á að skapa þekkingu og nauðsynlega tæknilega innviði hér á landi svo atvinnulíf gæti nýtt máltæknina til að bæta þjónustu eða framleiðsluþætti fyrir almenning og í sinni starfsemi.
Til þess að gera fyrirtækjum kleift að nýta sér innviðina hafa öll gögn sem unnið var að innan áætlunarinnar verið gefin út undir opnum leyfum.

„Í þessu felst ekki síst hvati fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki til að innleiða íslenskt mál í stýrikerfi eða viðbótarlausnir í sínum tækjum.“

OpenAI, Google og Microsoft

Nokkur fyrirtæki hafa þegar nýtt sér íslenska máltækni í sinni þjónustu en þrjú fyrirtæki ber þar hæst; OpenAI, Google og Microsoft.

Bandaríska tæknifyrirtækið OpenAI hefur rutt sér til rúms á sviði gervigreindarþróunar síðustu mánuði. Fyrirtækið gaf í marsmánuði þessa árs út nýja útgáfu af gervigreindarmállíkaninu Chat GPT sem er á meðal best þróuðu gervigreindarmállíkana sem þekkjast í dag. OpenAI ákvað við þróun á nýjustu útgáfu mállíkansins, GPT-4, að velja íslensku fyrst tungumála utan ensku sem það mál sem gervigreindarmállíkanið yrði sérstaklega þjálfað í.

Google kynnti í sumarlok ársins 2012 nýjan talgreini fyrir íslensku sem hefur meðal annars verið notaður í farsímum með Android-stýrikerfi. Haustið 2015 gaf Google svo út talgervilsröddina Önnu sem byggir á raddupptökum sem Háskólinn í Reykjavík gerði í samstarfi við Google. Í febrúar 2023 bætti Google svo röddinni Önnu inn í stýrikerfi Android og því er hægt að láta síma með Android-stýrikerfi lesa allt sem þar fer fram upp á íslensku.

Microsoft gaf út talgervilsraddirnar Guðrúnu og Gunnar á vormánuðum 2022. Raddirnar eru bæði stýrikerfisraddir og aðgengilegar í gegnum skýjaþjónustu Microsoft og því getur vafri Microsoft, Edge, lesið upp íslenskan texta líkt og vafri Google, Chrome. Samhliða gaf Microsoft út íslenskan talgreini í fyrsta skipti og er því fyrsta stórfyrirtækið sem gerir það frá því að Google gaf út sinn íslenska talgreini árið 2012. 

Næstu skref að ræða við Teslu, Zoom og fleiri erlend fyrirtæki

Vinna er hafin innan ráðuneytisins við að kortleggja næstu skref í samskiptum við erlend fyrirtæki um íslenska máltækni.

Ráðuneytið hefur sett sig í samband við rafbílaframleiðandann Teslu, sem þýddi nýlega viðmót stjórnkerfis hluta ökutækja sinna yfir á íslensku, til að gera grein fyrir þeim íslensku máltæknilausnum sem hafa verið gefnar út undir opnum leyfum og fyrirtækið hvatt til að nýta sér þær við næstu uppfærslur stjórnkerfisins. Fyrirhugað er að senda bréf á fyrirtækið Zoom, sem heldur úti fjarfundaforriti sem fjöldi íslenskra fyrirtækja notar, í sama tilgangi.
Stýrihóp um gerð næstu máltækniáætlun hefur verið komið á fót og mun hann meðal annars gera tillögu til menningar- og viðskiptaráðherra að forgangsröðun á þeim erlendu fyrirtækjum sem gagnlegast væri að koma íslenskunni að hjá með tilliti til þarfar og notkunar almennings.

„Þróun gervigreindarinnar og hvernig henni mun vinda fram er eitt stærsta verkefni okkar kynslóða til að leysa á farsælan hátt. Á þeirri veg¬ferð er mikilvægt að hafa í huga að mannkynið stjórni tækninni en ekki öfugt og að hún verði nýtt til þess að vinna samfélögum gagn fremur en ógagn. Það er mikilvægt að við Íslendingar gætum að hagsmunum okkar í þessu tilliti, og þá vakt munum við standa af áframhaldandi staðfestu,“ segir menningar og viðskiptaráðherra og leggur áherslu á umgjörð um gervigreind hér á landi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum