Hoppa yfir valmynd
6. júní 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Kaupmáttur jókst þrátt fyrir verðbólgu og mikill meirihluti skatttekna kom frá þeim tekjuhæstu

Kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst að jafnaði um 1,6% yfir allar tekjutíundir á árinu 2022, þrátt fyrir aukna verðbólgu. Þar er þó undanskilin efsta tekjutíundin, þar sem kaupmáttur ráðstöfunartekna lækkaði um sama hlutfall á milli ára.

Mikill meirihluti tekna ríkissjóðs kemur frá efstu þremur tekjutíundunum, eða um 81%. Tekjuhærri helmingur landsmanna greiðir um 82,5% allra álagðra gjalda.

Þetta kemur fram í greiningu ráðuneytisins á álagningu opinberra gjalda eftir tekjutíundum út frá skattframtölum. Í tekjutíund felst að búið er að skipta einstaklingum í tíu jafn stóra hópa þar sem sú fyrsta er með lægstu tekjurnar og sú tíunda með þær hæstu.

 

Tekjuhærri greiða 82,5% álagðra gjalda

Efri helmingur tekjustigans greiðir um 82,5% gjalda sem lögð eru á framteljendur. Á efstu tekjutíundina, sem fær 28% af heildartekjum er álagður skattur 35% af heildarsköttum og borgar sú tíund að meðaltali 3,2 m.kr. í tekjuskatt, 2,4 m.kr í útsvar og 1,2 m.kr. í fjármagnstekjuskatt. Sem hlutfall af heildarstofni tekjuskatts greiðir efsta tíundin 39%, 23% alls útsvars og 83% af öllum fjármagnstekjuskatti. Neðri fimm tekjutíundirnar greiða samanlagt 13% af heildarútsvari og 4% af öllum tekjuskatti eða alls 17,5%.

 

52% tekjuskatts rann til sveitarfélaga – 81% tekna koma frá efstu þremur tíundunum

Tekjuskattur nam alls 585 ma.kr, en þar af renna 306 ma.kr í útsvar til sveitarfélaga. Eftir standa 279 ma.kr sem renna til ríkissjóðs. 2/3 tekna ríkissjóðs koma frá efstu tveimur tekjutíundunum. Útsvar er flatur skattur sem leggst jafnt á allar tekjur og jöfnunarhlutverk þess kemur í gegnum ríkið þegar það ábyrgist persónuafslátt til greiðslu útsvars. Þannig greiddi ríkissjóður útsvar fyrir einstaklinga til fulls upp að 2.057.208 kr árstekjum og að hluta með árstekjum upp að 3.805.826 kr.

 

Barnabætur hækkuðu og fleiri foreldrar fengu greiddar barnabætur

Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta hækkuðu um 8% á milli tekjuáranna 2021 og 2022 og heildarfjárhæð útgreiddra barnabóta hækkaði um 4%. Foreldrar sem fengu greiddar barnabætur voru 55.842 og fjölgaði um 4.535 á milli ára.

 
Um síðustu áramót urðu breytingar á barnabótakerfinu og það einfaldað. Tilgangur breytinganna var að fjölga þeim sem nytu stuðnings og draga úr skerðingum í kerfinu, auk þess sem jaðarskattar af völdum barnabóta lækka og skilvirkni og tímanleiki bótanna verður aukinn. Árið 2023 verður ein upphæð greidd með hverju barni, óháð fjölda barna, en áður var miðað við fjölda barna Skerðingarmörk tekna verða 4.750 þ.kr. (var 4.549 þ.kr.) hjá einstæðu foreldri og 9.500 þ.kr. (var 9.098 þ.kr.) hjá hjónum og sambúðarfólki. Skerðingarhlutföll eftir fjölda barna lækka og verða 4%, 6% og 8% óháð tekjum en voru áður 5,5%, 7,5% og 9,5% fyrir tekjur ofan tiltekinna marka. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum