Hoppa yfir valmynd
9. júní 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

200 þúsund tonn af tækifærum sett í vinnslu í Hringrásarklasa

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - myndHåkon Broder Lund

Stofnun Hringrásarklasa, vaxandi áhugi fyrir fjárfestingu í hringrásarverkefnum og skattalegar aðgerðir til að auðvelda endursölu nytjahluta eru meðal aðgerða og hugmynda sem fram komu í kynningu starfshóps um flýtingu hringrásarhagkerfisins hér á landi.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði sl. haust starfshóp sem fékk það hlutverk að koma með tillögur að því hvernig flýta megi innleiðingu hringrásarhagkerfis. Starfshópurinn kynnti tillögur sínar „200 þúsund tonn af tækifærum“ á Kex Hostel í gær og vísar heitið til þess að starfshópurinn hefur kortlagt um 200 þúsund tonn af úrgangi sem hefur verið urðaður hingað til  en sem tækifæri eru til að breyta í verðmæti og draga með því úr sóun.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið mun hafa frumkvæði að stofnun hringrásarklasa í nánu samstarfi við félög, fyrirtæki og klasa í samræmi við tillögur starfshópsins. Hringrásarklasinn mun hafa það hlutverk að fylgja hringrásarverkefnunum eftir á forsendu klasahugmyndafræði, sem felur í sér að lögð er áhersla á að koma verkefnum í framkvæmd með samstarfi hagaðila.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Innleiðing hringrásarhagkerfisins er nauðsynlegur þáttur í að Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsmálum.  Innleiðingin þarf að ganga hratt fyrir sig og atvinnulífið þarf að vera leiðandi á þeim vettvangi. Til að við náum að draga úr kolefnisspori okkar með innleiðingu hringrásarhagkerfis þurfum við að breyta hugsunarhætti okkar og temja okkur að nýta betur það sem til er. Það er ánægjulegt að sjá tækifærin sem starfshópurinn er að kynna, tækifæri sem leynast alls staðar á landinu og sem gaman verður að fylgjast með raungerast undir hatti Hringrásarklasans þar sem samtali fjárfesta og frumkvöðla verður komið á.“

Undirbúningur verkefna þegar hafinn

Starfshópurinn hefur unnið að því í samvinnu við fyrirtæki, frumkvöðla og opinbera aðila að liðka fyrir framkvæmd hringrásarverkefna sem þegar hafa verið kortlögð og stuðla að því að þau komist í framkvæmd. Meðal þeirra verkefna sem þegar er hafinn undirbúningur að á grunni Hringrásarklasans eru:

  • 25.000 tonn af malbiki - endurnýting
  • 30.000 tonn af lífgasi - nýting
  • 2.500 tonn af textíl - endurnýting
  • 5.000 tonn af bílavarahlutum - endurnýting
  • 4.000 tonn af fiskafurðum - fullnýting

Þór Sigfússon, formaður starfshópsins: „Það felast mikil tækifæri í að skapa verðmæti úr margskonar hliðarstraumum - eins og sjávarútvegurinn hefur gert. Við eigum að vinna með þetta verkefni sem 200 þúsund tonna tækifæri – en ekki vandamál! Þetta eru allt saman auðlindir sem geta fært okkur bæði efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg gæði. Fjöldi nýsköpunarfyrirtækja hefur orðið til á þessu sviði og líklegt er að fáar atvinnugreinar hérlendis geti vaxið jafn hratt eins og þessi á komandi árum.“

Starfshópurinn var skipaður þeim Þór Sigfússyni, formanni hópsins, Kristni Árna Lár Hróbjartssyni og Kristínu Soffíu Jónsdóttur.

Hópurinn fundaði með frumkvöðlum og fyrirtækjum sem vinna að fjölbreyttum hringrásarverkefnum og var nokkur samhljómur meðal þeirra sem rætt var við að hægt gangi oft að koma hringrásarverkefnum í vinnslu. Voru helstu ástæður þessa taldar vera  skortur á fjármögnun og víðtækari samvinnu, veikt bakland og fjarlægð hringrásarverkefna frá fjármögnunarumhverfinu á höfuðborgarsvæðinu.

Fram kom í kynningu hópsins að þau hafi kynnt tækifæri í hringrásarhagkerfinu fyrir fjárfestum og að vaxandi áhugi sé fyrir fjárfestingu í slíkum verkefnum.Þá benda þau á að haga megi skattalegum aðgerðum til að auðvelda, til að mynda endursölu nytjahluta. Loks hvetur starfshópurinn til þess að skoðað verði hvernig megi opna á styrki úr samkeppnissjóðum til hringrásarverkefna.

www.hringrasarklasinn.is

Hringrásarklasinn á Instagram

200.000 tonn af tækifærum

 

  • 200 þúsund tonn af tækifærum sett í vinnslu í Hringrásarklasa - mynd úr myndasafni númer 1
  • Þór Sigfússon, formaður starfshóps um flýtingu hringrásarhagkerfis. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum