Hoppa yfir valmynd
9. júní 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Efnahagshorfur heimsins og alþjóðaviðskipti rædd á ráðherraráðsfundi OECD

Frá ráðherraráðsfundi OECD í París.  - myndMynd/OECD

Ráðherraráðsfundur Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, fór fram í París í vikunni og sat Bjarni Benediktsson hann fyrir Íslands hönd. Þema fundarins í ár voru sameiginleg gildi í alþjóðasamstarfi (e. Sharing a resilient future: Shared values and global partnerships).

Á fundinum var m.a. farið yfir efnahagshorfur í heiminum og alþjóðaviðskipti. Sérstök áhersla var lögð á jafnrétti kynjanna og mikilvægi þess í aukinni hagsæld samfélaga. OECD hefur t.a.m. reiknað það út að ef jöfn þátttaka kynjanna á vinnumarkaði næðist árið 2060, myndi það auka hagvöxt OECD ríkja alls um 9,2%.

Á fundinum skrifuðu James Cleaverly, utanríkisráðherra Breta, sem fór með formennskuna í ár, Mathias Cormann, framkvæmdastjóri OECD og Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, undir landsáætlun OECD fyrir Úkraínu um umbætur á stjórnsýslu og skýrari stefnumörkun stjórnvalda sem byggist á stöðlum og gildum OECD. Mun vinnan styrkja enn frekar enduruppbyggingu Úkraínu eftir stríð og undirbúa jarðveginn fyrir hugsanlega aðild Úkraínu að OECD í náinni framtíð. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tilkynnti um fjárhagslegan stuðning Íslands við landsáætlunina og greindi jafnframt frá alþjóðlegu tjónaskránni fyrir Úkraínu, sem sett var á stofn á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík í síðasta mánuði.

Á fundinum voru tækifæri og ógnanir örra tækniframfara rædd, m.a. lausnir til að sporna við og takast á við loftslagsbreytingar og þær siðferðislegu og vinnumarkaðstengdu áskoranir sem aukin notkun gervigreindar hefur í för með sér.

Fjármála- og efnahagsráðherra fundaði jafnframt með Clare Lombardelli, aðalhagfræðingi OECD, Fabriziu Lapecorella aðstoðarframkvæmdastjóra OECD og Manal Corwin, sem leiða málaflokka skattamála og mótvægisaðgerðir ríkja gegn loftslagsvánni hjá OECD.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum