Hoppa yfir valmynd
13. júní 2023 Forsætisráðuneytið

Velsældarþing hefst í Hörpu á morgun

Velsældarþing, alþjóðleg ráðstefna um velsæld og sjálfbærni, hefst í Hörpu á morgun og stendur fram á fimmtudag. Markmið ráðstefnunnar, sem haldinn er á vegum forsætisráðuneytisins og embættis landlæknis er að efla samstarf ríkja um velsældarhagkerfi og sjálfbærni og stuðla að umræðu opinberra aðila, atvinnulífs og almennings um það hvernig við höfum velsæld fólks og náttúru að leiðarljósi í stefnumótun og ákvarðanatöku til að byggja upp farsælt samfélag til framtíðar.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Neil Gray, ráðherra umhverfis- og velsældarmála Skotlands og Paulette Lenert, heilbrigðisráðherra Lúxemborgar eru meðal þátttakenda á ráðstefnunni.

Á meðal helstu fyrirlesara eru Dr. Hans Kluge, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Evrópu og Lord Richard Layard, stofnandi og framkvæmdastjóri þverfaglegs rannsóknaseturs við London School of Economics um efnahagsmál og hagsæld og höfundur metsölubóka um tengsl efnahagslegrar framþróunar og hamingju almennings. Einnig taka þátt Kate Pickett prófessor í faraldsfræði við háskólann í York og Richard Wilkinson heiðursprófessor í félagslegri faraldsfræði við háskólann í Nottingham.

Aðgangur að ráðstefnunni er ókeypis og öllum opin. Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu eru á vefsvæði ráðstefnunnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum