Hoppa yfir valmynd
14. júní 2023 Innviðaráðuneytið

Varaflugvallagjald til uppbyggingar á innanlandsflugvöllum orðið að lögum

Keflavíkurflugvöllur - mynd

Alþingi samþykkti fyrir helgi lagafrumvarp innviðaráðherra um rekstur og uppbyggingu flugvalla og flugleiðsöguþjónustu. Með þessu hafa orðið til heildstæð lög um efnið í stað dreifðra lagaákvæða. Lögin taka gildi 1. nóvember nk.

Með lögunum er kynnt til sögunnar nýtt varaflugvallargjald sem ætlað að bregðast við og tryggja fjármagn til uppbyggingar innviða á innanlandsflugvöllum. Markmiðið er að flugvellirnir geti sinnt hlutverki sínu sem mikilvægar gáttir inn í landið og varaflugvellir fyrir Keflavíkurflugvöll með fullnægjandi hætti.

„Með nýju varaflugvallargjaldi er unnt að fjármagna uppbyggingu og viðhald á innanlandsflugvöllum til framtíðar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra. Í þingsályktunartillögu um samgönguáætlun 2024-2038, sem Sigurður Ingi kynnti í gær, eru boðuð stóraukin framlög til innanlandsflugvalla með þessari nýju fjármögnun. Þannig verður mögulegt að ráðast í mikilvægar framkvæmdir á varaflugvöllunum á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík.

Varaflugvallagjaldið er útfært í lögunum. Það felur í sér að 200 kr. gjald verður lagt á alla farþega. Tengifarþegar greiða þó aðeins fyrir annan fluglegginn þegar þeir millilenda.

Meginmarkmið nýrra laga er að flugvellir landsins og þjónusta við flugumferð þjóni þörfum samfélagsins með skilvirkni, hagkvæmni og öryggi í fyrirrúmi í samræmi við stefnu stjórnvalda í samgöngumálum, eins og hún birtist m.a. í flugstefnu og samgönguáætlun.

Einföldun regluverks

Í lögunum er kveðið á um brottfall úreltra laga og lagaákvæða á þessu sviði. Það mun því fela í sér töluverða einföldun regluverks og jafnframt draga fram verkefni stjórnvalda á þessu sviði með mun skýrari hætti en í gildandi lögum.

Almennar kröfur til starfrækslu flugvalla, rekstrarstjórnunar flugumferðar og veitingu flugleiðsöguþjónustu fer eftir sem áður samkvæmt lögum um loftferðir, nr. 60/1998, og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum