Hoppa yfir valmynd
15. júní 2023 Innviðaráðuneytið

Umgjörð um almennt ökunám orðin stafræn

Nú er umgjörð almenns ökunáms (B-réttinda) orðin stafræn. Allir ferlar sem ökunemar, ökukennarar og ökuskólar nýta vegna námsins eru orðnir stafrænir og pappír heyrir því að mestu sögunni til. Markmiðið með verkefninu er að einfalda ökunámsferlið, bæta þjónustu og fækka snertiflötum milli stofnana. 

„Við fögnum þessum góða áfanga því þetta mun án efa bæta þjónusta við nemendur og ökukennara. Nú þarf mun sjaldnar að keyra á milli afgreiðslustaða hins opinbera og pappírsnotkun minnkar við það að kveðja umsóknareyðublöð og ökunámsbókina. Bætt stafræn umgjörð er afrakstur af góðu samstarfi stofnana hins opinbera og við höldum ótrauð áfram að bæta stafræna þjónustu í ökunáminu með næstu skrefum í verkefninu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Hvað er nú hægt að gera stafrænt?

Nú hafa verið innleiddir fjölmargir stafrænir ferlar í gegnum Ísland.is, með tengingum við þær stofnanir sem að ökunáminu koma. Þetta þýðir að nú geta:

  • Ökunemar sótt um að hefja ökunám á netinu, fylgst með framvindu þess og sótt stafrænt ökuskírteini þegar þeir hafa staðist verklegt próf.
  • Ökukennarar staðfest með stafrænum hætti ökutíma, akstursmat og að nemandi sé tilbúinn í æfingaakstur.
  • Ökuskólar staðfest stafrænt að nemandi hafi lokið ökuskóla.
  • Leiðbeinendur í æfingaakstri sótt stafrænt um að gerast leiðbeinendur. 

Umsóknir og staðfestingar má finna á island.is/okunam. Ökuneminn hefur aðgang að sinni ökunámsbók á Mínum síðum á Ísland.is. 

Næstu skref:

  • Sýslumenn geti nýtt undirskrift og mynd úr vegabréfi fyrir útgáfu ökuskírteinis. 
  • Undirbúningur hjá Samgöngustofu fyrir rafræna próftöku í bóklegum ökuprófum. 
  • Áframhaldandi samstarf um stafræna ferla fyrir önnur ökuréttindi.

Verkefnið er í umsjón Samgöngustofu sem hefur unnið það í samstarfi við innviðaráðuneytið, sýslumannsembættin, Ríkislögreglustjóra og Stafrænt Ísland.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum