Hoppa yfir valmynd
16. júní 2023 Utanríkisráðuneytið

Varnarmálaráðherrar ræddu aukinn varnarviðbúnað Atlantshafsbandalagsins

Varnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagsins á fundinum í dag - myndAtlantshafsbandalagið
Varnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagsins luku í dag tveggja daga fundi í Brussel þar sem árásarstríð Rússlands gegn Úkraínu, efling varnar- og fælingargetu svo og kjarnorkuvarnir bandalagsins voru efst á baugi.

Fundurinn hófst á því að Oleksii Reznikov varnarmálaráðherra Úkraínu gerði ráðherrunum grein fyrir þróun stríðisins. Breið samstaða var um mikilvægi þess að halda áfram að styðja Úkraínu í gegnum stuðningssjóði bandalagsins og vinna að umbótum og endurreisn í landinu.

„Ríkin eru einhuga um að styðja varnarbaráttu Úkraínu með þeim hætti sem þau geta, ég kynnti nýlega ákvörðun Íslands um að kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi til að færa úkraínsku þjóðinni og áframhaldandi stuðning við þjálfunarverkefni meðal annars á sviði sprengjueyðingar og neyðarhjálpar fyrir særða hermenn“, sagði Þórdís Kolbrún Gylfadóttir utanríkisráðherra. 

Í annari vinnulotu fundarins var rætt um varnaráætlanagerð, aukinn varnarviðbúnað, fælingargetu og framlög til varnarmála.  Í tengslum við þá vinnu hefur verið ákveðið að setja á fót sérstaka miðstöð í flotaherstjórn bandalagsins sem styður við eftirlit og upplýsingamiðlun vegna ógna sem stafa að neðansjávarinnviðum. 

„Aukið samstarf og upplýsingaskipti um neðansjávarinnviði skipta miklu máli fyrir Ísland og önnur ríki sem reiða sig á fjarskipta- og orkuinnviði á sjávarbotni. Það er þess vegna mjög jákvætt skref að öflugasta varnarbandalags sögunnar hugi sérstaklega að þessu“, sagði utanríkisráðherra. 

Að endingu hittust ráðherrarnir til að ræða málefni tengd kjarnavopnafælingu bandalagsins, stöðu samninga um takmörkun vopna og yfirlýsingar Rússa um að flytja kjarnavopn til Belarús. 

Í aðdraganda varnarmálaráðherrafundarins hittust rúmlega fimmtíu ríki, öll bandalagsríkin og fjöldi samstarfsríkja, sem eru hluti af vinnuhópi um stuðning við Úkraínu sem Bandaríkin leiða (e. Ukraine Defence Contact Group). Á fundinum var farið yfir stöðu átakanna og tilkynntu fjölmörg ríki um aukin framlög til mæta varnarþörfum Úkraínu.
 
  • Frá fundi vinnuhóps um stuðning við Úkraínu  - mynd
  • Varnarmálaráðherrar ræddu aukinn varnarviðbúnað Atlantshafsbandalagsins - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum