Hoppa yfir valmynd
21. júní 2023 Innviðaráðuneytið

Samið um aukið fjármagn í átaksverkefni um úrbætur í aðgengismálum fyrir fatlað fólk

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra undirrita samkomulagið að viðstöddum Guðjóni Sigurðssyni, formanni MND-samtakanna. Guðjón verður áfram verkefnisstjóri átaksverkefnisins. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, undirrituðu í dag samkomulag um aukinn stuðning við átaksverkefni stjórnvalda og ÖBÍ um úrbætur um land allt í aðgengismálum fyrir fatlað fólk. Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga mun veita allt að 415 milljónir kr. til úrbótaverkefna út árið 2024. Þá fær ÖBÍ sérstakan fjárstyrk, að fjárhæð 14 milljónir kr., til að ráða verkefnisstjóra út samningstímabilið.

Átaksverkefninu var ýtt úr vör vorið 2021 og hefur nú verið framlengt til ársloka 2024. Verkefnið felst í því að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk, m.a. í opinberum byggingum, almenningssamgöngum, útivistarsvæðum og almenningsgörðum svo aðeins nokkur dæmi séu nefnd. Áfram verður unnið í samvinnu við sveitarfélög landsins að tryggja að fatlað fólk hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra.

„Við höfum verið afskaplega ánægð með átaksverkefnið og samstarfið við ÖBÍ. Bætt aðgengi fyrir fatlað fólk til jafns við aðra skiptir afskaplega miklu máli fyrir allt samfélagið. Fyrir tilstilli verkefna af þessu tagi og aukinnar vitundarvakningar meðal fólks hefur tekist ná árangri. Við ætlum að byggja á þeim grunni og gera enn betur með því að framlengja samstarfið við ÖBÍ,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

„Við bindum miklar vonir við, og erum viss um að átaksverkefnið muni skila stórbættu og betra aðgengi að manngerðu umhverfi í sveitarfélögum. Átakið er í raun vitundarvakning og eykur skilning fólks á mikilvægi góðs aðgengis fyrir öll sem um samfélagið fara. Síðast en ekki síst hlýtur það að vera sveitarfélögum heilmikil hvatning til að gera sífellt betur í aðgengismálum,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka.

Úrbótastyrkir veittir úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs

Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga veitir styrki til fjölbreyttra úrbótaverkefna gegn helmings mótframlagi sveitarfélag. Innviðaráðherra hefur samþykkt breytingu á reglugerðinni sem heimilar að sjóðnum að úthluta allt að 415 milljónum króna til slíkra verkefna til ársloka 2024. Alls var 240 milljónum kr. ráðstafað úr sjóðnum til úrbótaverkefna vegna aðgengismála ráðstafað á árunum 2021 og 2022 eftir að átakinu var ýtt úr vör.

Hlutverk verkefnisstjóra á vegum ÖBÍ verður áfram að vinna með sveitarfélögum að mótun verkefna í samstarfi við aðgengisfulltrúa og aðra sem sinna aðgengismálum einstakra sveitarfélaga, sem gætu verið vel til þess fallin að falla undir styrkveitingu Jöfnunarsjóðs.

Dæmi um verkefni sem styrkt verða eru: 

  • Úrbætur á aðgengi fatlaðs fólks að byggingum í eigu sveitarfélaga eða byggingum í eigu annarra aðila en sveitarfélaga þar sem um samvinnuverkefni sveitarfélaga og einkaaðila er að ræða.
  • Úrbætur til að biðstöðvar almenningssamgangna, almenningsgarðar og útivistarsvæði verði aðgengileg fötluðu fólki.
  • Úrbætur sem lúta að viðeigandi aðlögun á vinnustöðum fatlaðs fólks, sem starfræktir eru eftir lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum