Hoppa yfir valmynd
23. júní 2023 Utanríkisráðuneytið, Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Enduruppbygging í Úkraínu í brennidepli í London

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sótti alþjóðlega ráðstefnu um enduruppbyggingu í Úkraínu sem fór fram í London dagana  21. og 22. júní. Forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky, og forsætisráðherra Bretlands, Rishi Sunak, opnuðu ráðstefnuna og þá flutti Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, einnig ávarp ásamt öðrum leiðtogum og ráðherrum þátttökuríkja og alþjóðastofnanna. Í ávarpi sínu fjallaði forsætisráðherra Úkraínu, Denys Shmyhal, sérstaklega um mikilvægi tjónaskrárinnar sem komið var á fót á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík.

Uppbygging í Úkraínu mun ekki eiga sér stað án virkrar þátttöku atvinnulífsins og sóttu fjölmörg fyrirtæki einnig ráðstefnuna. Fjallað var meðal annars um orkumál, mannauð, endurbætur á úkraínska stjórnkerfinu og leiðir til að lágmarka áhættu fyrirtækja. Mikil samstaða var meðal þátttakenda um að virkja fjárfestingartækifæri sem best og tryggja lykilinnviði og seiglu til skamms tíma ásamt því að stuðla að varanlegri uppbyggingu í landinu. Byggt var á rammanum sem ákveðinn hafði verið árinu áður í Lugano. 

„Frá upphafi allsherjarinnrásar Rússlands í Úkraínu hefur Íslandi staðið með Úkraínu og fólkinu þar í landi og veitt mannúðar-, efnahags- og varnartengda aðstoð. Ísland mun leggja sitt af mörkum þegar kemur að uppbyggingu í Úkraínu. Í samstarfi við íslensk orkufyrirtæki munum við aðstoða Úkraínsk stjórnvöld við að koma upp grænni orku þegar aðstæður leyfa,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ávarpi sínu í London.

Á ráðstefnunni var sett á laggirnar formlegt samstarfsverkefni með fyrirtækjum vegna uppbyggingar í Úkraínu. Þetta eru loforð fyrirtækja um að taka þátt með einhverjum hætti í uppbyggingu í Úkraínu og til að sýna Úkraínu samstöðu úr einkageiranum. Eru íslensk fyrirtæki hvött til að skoða þau tækifæri sem gætu falist í þátttöku. 

Þá sótti Guðlaugur Þór einnig móttökur í boði Karls III Bretakonungs og James Cleverly utanríkisráðherra í tengslum við ráðstefnuna. 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum