Hoppa yfir valmynd
23. júní 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Stjórnunar- og verndaráætlun staðfest fyrir Hrútey og Spákonufellshöfða ​

Hrútey og áin Blanda. - myndMarkaðsstofa Norðurlands

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur staðfest stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Hrútey í Húnaþingi og fyrir Spákonufellshöfða á Skagaströnd.

Hrútey er klettaeyja og vinsælt útivistarsvæði í miðri ánni Blöndu þar sem hún rennur í gegnum Blönduós. Hrútey var friðlýst sem fólkvangur árið 1975 og var með friðlýsingunni tryggð frjáls för gangandi fólks um eyna og jafnframt verndun jarðmyndana, gróðurs og dýralífs svæðisins.

Stjórnunar- og verndaráætlun Hrúteyjar var unnin í samstarfi Umhverfisstofnunar, Húnabyggðar og hagsmunaaðila og er þar staðfest stefna um verndun fólkvangsins og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins og efla jákvæða ímynd þess, þannig að sátt ríki um.

Fólkvangurinn Spákonufellshöfði var friðlýstur árið 1980 og var stjórnunar- og verndaráætlunin, sem nú hefur verið staðfest, unnin í samstarfi við Sveitarfélagið Skagaströnd. Með henni eru staðfest þau grundvallarsjónarmið um hvernig viðhalda og auka eigi verndargildi svæðisins.

Spákonufellshöfði er vestan við byggðina á Skagaströnd og nær niður að sjó auk þess sem sker úti fyrir höfðanum tilheyra fólkvanginum. Höfðinn er úr stórgerðu stuðlabergi og er líklega gamall gostappi, sem síðar hefur verið rofinn af jöklum ísaldar. Með friðlýsingunni var tryggð verndun jarðmyndana, gróðurs og dýralífs svæðisins, auk þess sem svæðið var tryggt til útivistar.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Hrútey og Spákonufellshöfði falla bæði í þann flokk verndarsvæða þar sem samspil manns og náttúru hefur í gegnum tíðina skapað svæðunum sérstöðu. Meginmarkmið stjórnunar- og verndaráætlananna sem nú hafa verið staðfestar er að leggja fram stefnu um verndun þessara svæða og hvernig viðhalda skuli verndargildi þeirra um leið og fólk fái þeirra áfram notið.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum