Hoppa yfir valmynd
29. júní 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Skýrsla um eflingu samfélags á Vestfjörðum: Áfram unnið að undirbúningi þjóðgarðs og raforkuinnviðir tryggðir

Skýrslan starfshópsins var kynnt í félagsheimilinu Birkimel. Ráðherra tók þátt í gegnum fjarfundarbúnað. - myndVestfjarðarstofa

Tryggja þarf fullnægjandi raforkuinnviði á Vestfjörðum til að mæta megi aukinni raforkuþörf og fasa þarf út notkun jarðefnaeldsneytis til húshitunar á svæðinu fyrir árið 2030. Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps, sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði til að vinna tillögur um aðgerðir sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins og stuðlað geta að því að efla samfélagið á Vestfjörðum. Þá er í skýrslunni hvatt til að áfram verði haldið með undirbúning þjóðgarðs á Vestfjörðum og möguleg stækkun skoðuð í samstarfi við landeigendur og sveitarfélög.

Starfshópurinn, sem var skipaður þeim Einari K. Guðfinnssyni, sem var formaður hópsins, Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar og Jóni Árnasyni, forseta bæjarstjórnar í Vesturbyggð, kynnti tillögur sínar á fundi í félagsheimilinu Birkimel á Barðaströnd í dag.

Í skýrslunni leggur starfshópurinn áherslu á að bregðast þurfi við fyrirsjáanlegri aflþörf með því að auka orkuframboð á Vestfjörðum um 80% fram til ársins 2030 og vísar þar í skýrslu um raforkumál á Vestfjörðum frá 2022. Er það mat hópsins að mikilvægt sé að fylgja eftir ítarlegum og tímasettum tillögum sem þar voru settar fram um framkvæmdir í meginflutningskerfi raforku á Vestfjörðum, svæðisbundna flutningskerfinu og í dreifikerfi Vestfjarða.

Einnig felist mikill ávinningur í því að jarðhiti verði nýttur í auknum mæli til húshitunar og leggur starfshópurinn til að fé verði varið af fjárlögum til verkefnisins. Sérstaklega þurfi að styðja við jarðhitaframkvæmdir í landshlutanum, m.a. með það að markmiði að fasa út notkun jarðefnaeldsneyti til húshitunar á Vestfjörðum fyrir árið 2030.

Þjóðgarðsundirbúningur samhliða umhverfismati

Starfshópurinn hvetur til að áfram verði haldið með undirbúning þjóðgarðs á Vestfjörðum og  unnið að uppbyggingu innviða á svæðinu. Þá verði skoðaðir, í samstarfi við landeigendur og sveitarfélög, möguleikar á frekari stækkun svæðisins sem þjóðgarðurinn gæti náð yfir.

Samhliða undirbúningi þjóðgarðs verði þó einnig tekin afstaða til beiðni Orkubús Vestfjarða, sem hefur farið fram á afléttingu friðlýsingarskilmála á hluta friðlandsins í Vatnsfirði, svo undirbúa megi umhverfismat á 20-30 MW vatnsaflvirkjun. Er það mat starfshópsins að virkjun í Vatnsdal sé áhugaverður kostur sem leyst gæti úr bráðum vanda í raforkumálum á Vestfjörðum. Virkjunin myndi auka afhendingaröryggi um 80%, styrkja og stytta flutningsleiðir, auka flutningsgetu Vesturlínu og draga úr olíunotkun, sem geri hana arðbæra. Hvetur starfshópurinn stjórnvöld til að taka sem fyrst afstöðu til þeirrar beiðni.

Nauðsynlegt að bregðast við með skipulögðum verkefnum

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Ég er glaður með samstöðuna hjá sveitarstjórnum um mikilvægi þess að stofna þjóðgarð á Vestfjörðum og að leggja til leiðir til aukinnar grænnar orkuöflunar á svæðinu. Staðan er alvarleg á Vestfjörðum. Notkun dísels til rafmagnsframleiðslu hefur tífaldast á einu ári. Árið 2021 voru 200 þúsund lítrar af díselolíu notaðir til raforkuframleiðslu, en 2022 voru það 2,1 milljón lítra. Það samsvarar áfyllingu á um 40 þúsund bíla. Það eitt og sér segir okkur að það er nauðsynlegt að grípa til aðgerða strax. Þá liggur það fyrir að orkuþörfin mun aukast um 80% fyrir árið 2030 ef ná á tilsettum markmiðum um orkuskipti.  Vestfirðir hafa átt undir högg að sækja á undanförnum áratugum en jákvæð þróun hefur átt sér stað á undanförnum árum og ég fagna tillögum starfshópsins. Skýrslan sýnir að nauðsynlegt er að bregðast við stöðunni með skipulögðum agðerðum og mikilvægt er að ráðast í þær strax.“

 

Meðal annarra tillagna sem fram koma í skýrslunni er að:

  • Sett verði af stað verkefni til þess að flýta til því að sem flestir smávirkjanakostir komist til framkvæmda sem fyrst.
  • Álitamál vegna Hvalárvirkjunar verði leyst sem svo hægt sé að vinna áfram að umhverfismati.
  • Komið verði í veg fyrir að tengigjald Austurgilsvirkjunar hindri virkjunarframkvæmdina.
  • Vindorkuver í Garpsdal komi til skoðunar við undirbúning næsta áfanga Rammaáætlunar

Þá leggur hópurinn til að Vestfjarðarstofa og sveitarfélögin á Vestfjörðum hefji vinnu við gerð svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs fyrir Vestfirði og að stutt verði við græna atvinnuuppbyggingu og hugað að því að nota efnahagslega hvata til orkusparnaðar.

Skýrsla starfshóps um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum

  • Starfshópurinn f.v.: Jón Árnason, forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð, Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og Einar K. Guðfinnsson, formaður hópsins. - mynd
  • Dynjandi. - mynd
  • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum