Hoppa yfir valmynd
30. júní 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Kveikjum neistann: árangurinn í Vestmannaeyjum er hreint frábær!

Frá undirritun viljayfirlýsingar um verkefnið í febrúar 2021. Helgi Rúnar Óskarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands, Lilja Alfreðsdóttir þá mennta- og menningarmálaráðherra og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. - mynd

Þróunarverkefni við Gunnskólann í Vestmannaeyjum, Kveikjum neistann, sem staðið hefur yfir sl. 2 ár fer vel af stað og benda fyrstu niðurstöður til árangurs fram úr björtustu vonum aðstandenda. Markmið verkefnisins er að bæta líðan og árangur nemenda og efla áhugahvöt þeirra en grunnþáttur í því er að allir nemendur nái færni í lestri.

Við lok skólaárs 2023 gátu 98% barna í 1. bekk lesið orð með stórum bókstöfum, þau höfðu brotið lestrarkóðann. Markmiðið var að 80 % barna í bæjarfélaginu væru læs eftir 2. bekk og því markmiði var náð. 39 af 47 börnum voru fulllæs, þau gátu lesið texta og skilið hann.

„Læsi er lykill að öllu öðru námi og að lífsgæðum almennt og það er eftirtektarvert að fylgjast með þeim árangri sem Vestmannaeyjabær hefur náð nú þegar. Liður í verkefninu er að allt samfélagið vinnur saman að því mikilvæga verkefni að efla læsi barnanna og nálgast þá áskorun heildstætt með skólasamfélaginu og kennurunum. Samtakamátturinn skilar árangri, og seiglan líka,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

„Árangur þessara fyrstu tveggja ára er hreint frábær! Vellíðan og árangur haldast í hendur, og hér er fólk reiðubúið að vinna þétt saman að því að bæta hvoru tveggja. Það felast mikil tækifæri í því fyrir sveitarfélög að skapa umgjörð fyrir þróun skólastarfs í sínum skólum og að virkja samfélagið með. Menntun barna á öllum skólastigum er jú sameiginlegt verkefni okkar allra,“ segir Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Áherslur verkefnisins snúa að læsi, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og hugarfari nemenda og tengjast þróun á kennsluháttum, kennsluefni og starfsþróun og ráðgjöf. Markmið verkefnisins eru meðal annars að:

  • 80% nemenda séu læsir við lok 2. bekkjar og að allir nemendur fái markvissa þjálfun í lesskilningi alla grunnskólagönguna.
  • Að nemendur fá þjálfun sem stuðlar að framúrskarandi færni í skapandi skrifum og framsögn.
  • Að nemendur bæti hreyfifærni, hreysti og einbeitingu sína.
  • Að nemendur öðlist ástríðu fyrir náttúru- og umhverfisfræði.

Að verkefninu standa auk Vestmannaeyjabæjar, Háskóli Íslands, Samtök atvinnulífsins og mennta- og barnamálaráðuneyti. Árangur og afurðir verkefnisins verða nýttar í þágu fleiri grunnskóla á Íslandi, m.a. í gegnum Rannsóknasetur um menntun og hugarfars sem hefur aðsetur við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og starfsstöð við Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum.

Hermundur Sigmundsson prófessor við Háskóla Íslands leiðir verkefnið og rannsóknir á vegum setursins ásamt teymi fræðimanna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og NTNU háskóla í Noregi. Hermundur hefur meðal annars fengist við rannsóknir á samspili hreyfingar og náms, mikilvægi áhugahvatar og ástríðu og áhrif líðanar á námsárangur drengja og stúlkna.

Hægt er að fræðast nánar um verkefnið á vef Rannsóknaseturs um menntun og hugarfar.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum